Innlent

Málið ekki á dagskrá fyrr en í nóvember

Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson

Flutningsmenn tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort draga skuli til baka aðildarumsókn Íslands að ESB samhliða stjórnlagaþingskosningu gagnrýndu fundarstjórn Alþingis harðlega í gær.

Vigdís Hauksdóttir, Framsóknarflokki og fyrsti flutningsmaður tillögunnar, sagði ákvörðun þingforseta um að taka málið ekki á dagskrá til marks um heljargreipar framkvæmdarvaldsins á Alþingi. Nokkur bið verður á að mál hennar komist á dagskrá, en þing kemur næst saman að lokinni kjördæmaviku.

Vigdís hefur samhliða lagt til að lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur sem samþykkt voru í sumar verði breytt þannig að hægt verði að hafa kosningarnar á sama tíma.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra kvaðst ekkert hafa á móti því að Alþingi fjallaði um málið. Ekki væri fyrir því meirihluti á Alþingi að draga umsóknina til baka, ekki fremur en hjá þjóðinni, samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum.

Þá átaldi Össur Vigdísi fyrir að hafa í útvarpsviðtali sakað starfsmenn þingsins um mistök fyrir að hafa ekki lagfært „vitleysuna í henni“.

Hann áréttaði og kvað koma fram í greinargerð með frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslur að þriggja mánaða frestur fyrir kosningar væri nauðsynlegur til að þjóðinni gæti tekist að yfirvega mál. Þá væri skýrt tekið fram að ekki ætti að tengja þjóðaratkvæðagreiðslur við aðrar kosningar.

„Þannig að það rekur sig nú hvað á annars horn hjá þessum háttvirtu flutningsmönnum,“ sagði hann. - ókáAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.