Innlent

Tvöföldun Suðurlandsvegar á leið í útboð

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.

Átta mánaða útboðsbann í vegagerð gæti verið á enda. Samgönguráðherra kynnti ríkisstjórn í morgun áform um að bjóða út tvöföldun Suðurlandsvegar um Sandskeið og tvöföldun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ, verkefni upp á samtals tvo milljarða króna.

Kristján L. Möller samgönguráðherra segir að verið sé að skoða hvort unnt sé að koma þessum verkefnum í útboð sem fyrst. Hann segir að unnið verði betur í þessari viku með fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytinu hvort þetta rýmast innan áætlana og kveðst Kristján sæmilega bjartsýnn á að það takist.

Kaflinn á Suðurlandsvegi liggur um Sandskeið, milli Lögbergsbrekku og Litlu Kaffistofunnar, og er sex og hálfur kílómetri að lengd. Þetta yrði fyrsti áfangi þess viðamikla verkefnis að bæta þjóðveginn milli Reykjavíkur og Selfoss. Þessi kafli verður tvöfaldaður en ekki verða gerð mislæg gatnamót, eins og við Bláfjallaafleggjara. Áætlaður kostnaður er um einn og hálfur milljarður króna.

Hitt verkið er tvöföldun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ, milli Hafravatnsafleggjara og Þingvallaafleggjara, en á þessum kafla er Ullarnesbrekka, þar sem oft myndast umferðarteppur á annatímum. Áætlað er að þetta verk kosti um hálfan milljarð króna.

Vegagerðin er tilbúin með bæði verkin í útboð og telur að þau geti klárast á árinu 2011. Samgönguráðherra kveðst vonast til að framkvæmdir hefjist fljótlega í byrjun sumars.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×