Innlent

Akureyrarflugvöllur lokar líklega fari slökkiliðsmenn í verkfall

Akureyrarflugvelli verður væntanlega lokað komi til verkfalls slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í næstu viku. Fátt bendir til þess að samningar náist fyrir þann tíma.

Kjaraviðræður Landssambands slökkviliðs og sjúkraflutningamanna og launanefndar sveitarfélaganna sigldu í strand í gær. Launanefndin bauð 1,4 prósenta launahækkun en á það var ekki fallist.

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hafa boðað til átta klukkstunda verkfalls á föstudag í næstu viku. Á meðan á verkfallinu stendur verður ekki hægt að flytja sjúklinga milli spítala né kalla út aukamannskap á vaktir. Þá munu slökkviliðsmenn á Akureyrarflugvelli leggja niður störf.

„Þeir sem þurfa að fara á milli spítala þeir komast væntanlega ekki og flug til akureyrar tel ég að leggist af," segir Sverrir Björn Björnsson,formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

„Staðan er grafalvarleg. við þurfum að ná samningum fyrir verkfall. Við náum ekki samningum nema menn komi saman til að ræða málin," segir hann.

Frekari verkfallsaðgerðir hafa verið boðaðar náist ekki samningar.

„Það kemur þarna yfirvinnubann og svo kemur til allsherjarverkfalls sjöunda september þannig að við erum að gefa mönnum færi á að semja áður en við grípum til þess að fara í allsherjarverkfall," segir hann.

- Hvað þýðir það?

„Það verður lágmarks starfsemi" segir Sverrir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×