Innlent

Hrókeringar í ríkisstjórn í dag

Mynd/Anton Brink

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Ragna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra, munu hætta í ríkisstjórninni í vikunni. Allar líkur eru á að Kristján L. Möller samgönguráðherra og Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra hverfi einnig á braut. Tilkynnt verður um breytingar á ríkisstjórninni áður en þing kemur saman á morgun.

Samkvæmt heimildum blaðsins verður Ögmundur Jónasson nýr innanríkisráðherra og mun hafa með höndum verkefni sem áður voru á könnu samgöngu- og dómsmálaráðherra. Ekki liggur fyrir hver verður nýr ráðherra Samfylkingarinnar, en Oddný G. Harðardóttir, oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, er helst nefnd í því samhengi.

Allt útlit er fyrir að Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, bæti á sig verkefnum heilbrigðisráðuneytisins í nýju velferðarráðuneyti.

Jón Bjarnason mun áfram sitja í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Katrín Júlíusdóttir í iðnaðarráðuneytinu, að minnsta kosti fram að áramótum þegar ráðuneytin verða sameinuð í atvinnuvegaráðuneyti. Það mun þá falla í skaut Vinstri grænna.

Þingflokkar stjórnarflokkanna munu funda frá morgni og fram eftir degi í dag, meðal annars um fyrirhugaðar breytingar á ráðherraliðinu. - sh, kh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×