Innlent

Pétur Blöndal: Þetta er ekki Freyju að kenna

„Vinnandi fólk sem borgar bæturnar má ekki hafa það verra en þeir sem þiggja bætur," segir Pétur H. Blöndal þingmaður. Í núverandi kerfi sé fólk ýmist of- eða vantryggt og því þurfi að breyta.

Í fréttum Stöðvar 2 í gær var fjallað um Freyju Dís Númadóttur sem er öryrki og einstæð móðir þriggja barna. Um mánaðarmótin fékk hún 420 þúsund króna innborgun frá Tryggingarstofnun en inni í þeirri upphæð eru meðlög, barnalífeyrir og umönnunargreiðslur vegna barna hennar. Freyja hefur engu að síður þurft að leita sér mataraðstoðar upp á síðkastið.

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur í mörg ár gagnrýnt almannatryggingakerfið hér á landi. Hann segist margoft hafa bent á galla í kerfinu og staða Freyju hafi ekki komið sér á óvart. „Þetta er að sjálfsögðu ekki viðkomandi einstaklingi að kenna. Þetta er kerfið sem er svo lagskipt."

Pétur segir að í kerfinu sé bæði oftrygging en líka ákveðin vantrygging og nefnir dæmi um aðila sem að einhverjum ástæðum verða atvinnulausir. Hann segir oftrygginguna bera heilmikinn kostnað en hún gæti auðveldlega borgað upp vantrygginguna og því þyrftu breytingar ekki að kosta mikið.

Pétur segir að líta þurfi á kerfið heildstætt. „Og búa til kerfi sem tryggir þá sem þarf að tryggja og sé ekki að gera það að verkum að þeir sem borga bæturnar, það er að segja vinnandi fólk sem með sköttum sínum borgar bæturnar, séu verr settir heldur en þeir sem fá bæturnar. Það má ekki gerast."


Tengdar fréttir

Tæpar 400 þúsund krónur nægja ekki fyrir framfærslunni

Öryrki og einstæð móðir með nærri fjögur hundruð þúsund krónur í tekjur frá Tryggingastofnun kveðst ekki hafa efni á jólunum. Að minnsta kosti 75 prósent vinnandi fólks í landinu er með minna á milli handanna eftir skatta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×