Innlent

Gosið var stöðugt í nótt

Gosið í Eyjafjallajökli var ámóta kraftmikið í alla nótt og það var í gær. Þar hefur gengið á með sprengingum og töluverðu öskufalli sem hefur borist með vindi til austurs í Skaftártungurnar, Meðallandið og Landbrotið.

Þar dimmdi yfir áður en birtu brá í gærkvöldi og er víða öskugrátt yfir að líta. Flóð hljóp í Markarfljót á tólfta tímanum í gærkvöldi og aftur á þriðja tímanum í nótt, en þau voru mun minni en flóðið, sem varð um hádegisbil í gær. Skjálftavirkni hefur verið lítil í nótt, en gosóróinn hefur hinsvegar verið álíka og í gærdag.

Hringvegur eitt er enn í sundur á nokkrum stöðum og því lokaður. Brýrnar hafa hinsvegar staðið flóðin af sér. Íbúar á flestum bæjum á hættusvæðinu, fengu að snúa til síns heima í gærkvöldi, en þar er óheimilt að dvelja í orlofshúsum.

Almannavarnir beina því til bænda á áhrifasvæði gossins að hýsa allt það búfé, sem þeir geta þar sem aska úr eldstöðvum í Eyjafjallajökli er þekkt fyrir að innihalda mikið af flúor, sem getur haft bæði bráð og langvinn eituráhrif. Askan getur líka haft særandi áhrif á öndunar- og meltingarfæri.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×