Lífið

Toshiki syngur fyrir Gillz

Toshiki Toma sagði það ekki hafa verið létt að flytja Yesterday Once More, hann hefði helst viljað syngja Frank Sinatra. Fréttablaðið/Anton
Toshiki Toma sagði það ekki hafa verið létt að flytja Yesterday Once More, hann hefði helst viljað syngja Frank Sinatra. Fréttablaðið/Anton
„Þetta gekk bara vel, held ég, allavega var þetta mjög skemmtilegt,“ segir Toshiki Toma, prestur innflytjenda á Íslandi. Tökur standa nú yfir á sjónvarpsþáttaröð upp úr bók Egils „Gillz“ Einarssonar, Mannasiðir Gillz, sem Hannes Þór Halldórsson leikstýrir. Og á miðvikudagskvöld var blásið til allsherjar karókí-veislu.

Eins og lög gera ráð fyrir varð auðvitað að hafa japanskan þátttakanda til að fanga rétta andrúmsloftið enda á karókí rætur sínar að rekja til Japans. Toshiki brást snöggur við beiðni um að syngja og tók lagið fyrir myndavélarnar. „Mig langaði fyrst til að syngja Frank Sinatra enda hefur hann verið í miklu uppáhaldi hjá mér. En það var einhver annar búinn að velja hann,“ útskýrir Toshiki, sem varð þá að velja Carpenters-lagið Yesterday Once More og flutti það auðvitað með glæsibrag.

Hannes Þór Halldórsson, leikstjóri þáttanna, var ákaflega ánægður með klerkinn og hans framlag. „Við vorum að fara þarna í hvernig maður á að haga sér í karókí og hvernig ekki,“ segir Hannes. Tökur á leikna hluta þáttaraðarinnar hafa staðið yfir í tólf daga og fjölda þjóðþekktra einstaklinga bregður þar fyrir, meðal annars Agli Ólafssyni, Eddu Björgvinsdóttur, Gísla Erni, Birgi Leifi og svo bregður Ásgeiri Kolbeins fyrir í litlu „feluhlutverki“.

Aðalhlutverkin eru hins vegar í höndunum á Halldóri Gylfasyni, Jóhannesi Hauki, Steinda, Víkingi Kristjánssyni og Eddu Björg Eyjólfsdóttur. Hannes segir að nú verði hins vegar farið í upptökur á hetjunni sjálfri.- fgg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.