Enski boltinn

Dramatískur sigur Stoke - Eiður á bekknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kenwyne Jones, til vinstri, fagnar marki sínu í kvöld.
Kenwyne Jones, til vinstri, fagnar marki sínu í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

Robert Huth tryggði Stoke City dramatískan 2-1 sigur á Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Eiður Smári Guðjohnsen sat á varamannabekk Stoke í leiknum og kom ekki við sögu.

Aston Villa átti fleiri hættuleg færi í fyrri hálfleik en nýtti aðeins eitt þeirra. Stewart Downing skoraði þá með laglegum skalla og kom gestunum yfir.

Heimamenn sóttu í sig veðrið í síðari hálfleik og Kenwyne Jones jafnaði með skalla þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Jermaine Pennant, sem nýkominn er til félagsins rétt eins og Eiður Smári, fiskaði svo aukaspyrnu á hægri kantinum þegar uppbótartími leiksins var að renna út.

Upp úr henni skapaðist hætta við mark gestanna sem lauk með því að varnarmaðurinn Robert Huth stýrði knettinum í markið. Það reyndist síðasta spyrna leiksins.

Þetta voru fyrstu stig Stoke á tímabilinu og er West Ham nú eina félagið í ensku úrvalsdeildinni sem er enn stigalaust eftir fyrstu fjórar umferðirnar. Stoke er í átjánda sæti en Aston Villa í sjöunda sæti með sex stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×