Innlent

Fásinna að rifta kaupum Magma á HS orku

Ólík sjónarmið eru innan stjórnarflokkanna varðandi aðkomu Magma að HS orku. Þingmaður VG vill finna leiðir til að rifta kaupum félagsins, en þingmaður Samfylkingar fagnar aðkomu þess að áhætturekstri sem ríkið eigi ekki að vasast í. Fréttablaðið/Valli
Ólík sjónarmið eru innan stjórnarflokkanna varðandi aðkomu Magma að HS orku. Þingmaður VG vill finna leiðir til að rifta kaupum félagsins, en þingmaður Samfylkingar fagnar aðkomu þess að áhætturekstri sem ríkið eigi ekki að vasast í. Fréttablaðið/Valli
Fari svo að stjórnvöld hlutist til um að rifta kaupum Magma á hlut Geysis Green Energy í HS orku kann það að leiða til þess að auðlindin sjálf lendi í höndum erlendra kröfuhafa bankanna. Þetta segir Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar.

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, upplýsti í Fréttablaðinu um helgina að þótt ekki væri vænlegt fyrir ríkið að ganga inn í kaupin, vegna kostnaðar, væri til skoðunar hvort rifta mætti kaupunum. Samfylking og Vinstri græn eru í ríkisstjórn.

Magnús Orri segir mjög ranga stefnu að opna þann möguleika að ríkið stígi inn í samningana með einhverjum hætti, enda gæti það unnið gegn yfirlýstu markmiði um að halda orkuauðlindum í íslenskri eigu og um leið orðið til þess að fæla erlenda fjárfestingu frá landinu.

„Það er ekki verið að selja auðlindina sjálfa heldur fyrirtæki sem sér um nýtingarréttinn. Þetta er áhætturekstur sem opinberir aðilar eiga ekki að skipta sér af og algjör fásinna að ríkið eigi að fara inn í þetta mál,“ áréttar hann og telur að ef gripið yrði inn í ferlið, til dæmis með lagasetningu, þá yrði undið ofan af öllum samningum sem gerðir hafa verið um HS orku, allt aftur til þess tíma þegar eitt fyrirtæki átti bæði orkuna og nýtingarréttinn. „Að óbreyttu væri það fyrirtæki gjaldþrota og í eigu erlendra kröfuhafa og auðlindin myndi því færast í eigu útlendinga. Menn þurfa að átta sig á því hvert þetta leiðir.“

Aukinheldur telur Magnús Orri að inngrip stjórnvalda myndi koma í veg fyrir erlenda fjárfestingu í landinu næstu árin. „En við þurfum erlenda peninga inn í landið til þess að koma hér hjólum atvinnulífsins aftur af stað. Ég hins vegar heyri það að erlendir aðilar sem eru að velta fyrir sér að koma hingað, til dæmis í tengslum við gagnaver, spyrja sig hvort þeir eigi að leggja í þessa leið. Því ef Ross Beaty [forstjóri Magma] sem er búinn að búa til sjálfseignarstofnun í kringum sínar fjárfestingar fær ekki góðan byr með þær hér, þá sjá þeir ekki fram á að vel gangi hjá þeim sjálfum. En veigameira er að inngrip stjórnvalda í lögmæta viðskiptasamninga ber vott um stjórnmálalegan óstöðugleika sem er eitur í beinum erlendra fjárfesta.“

olikr@frettabladid.is
Magnús Orri Schram



Fleiri fréttir

Sjá meira


×