Innlent

Ábyrgðin hjá biskupi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ragna Árnadóttir, dóms- og mannréttindamálaráðherra, fundaði með biskupi í dag. Mynd/ Valgarður.
Ragna Árnadóttir, dóms- og mannréttindamálaráðherra, fundaði með biskupi í dag. Mynd/ Valgarður.
Þjóðkirkjan verður sjálf að leysa úr þeim málum sem á borði hennar eru núna. Þetta er niðurstaða Rögnu Árnadóttur, dóms- og mannréttindamálaráðherra. Hún fundaði með Karli Sigurbjörnssyni biskupi Íslands um málefni Þjóðkirkjunnar í dag. „Ég hef skoðað þessi mál því ég vildi fullvissa mig um það hverjar skyldur ráðuneytisins eru í þessu máli. Það er alveg ljóst að þau verða alfarið leyst innan Þjóðkirkjunnar," segir Ragna.

Varðandi ummæli séra Geirs Waage um að prestum bæri ekki að tilkynna vitneskju sína um kynferðisbrot gagnvart börnum segir Ragna að biskup hafi agavald yfir prestunum og það sé alfarið í hans höndum. Hins vegar hafi hún velt fyrir sér ákvæði í þjóðkirkjulögum um að ráðuneytið hafi umsjón með því að þjóðkirkjan fari að lögum. „Það felst ekki í því beint eftirlit en getur þó verið með þeim hætti að ef upp kæmi vafi um það hvernig túlka beri lagaákvæði að þá gæti ráðuneytið gefið álit sitt í því," segir Ragna. Varðandi þetta ákvæði bendir Ragna á að það sé skýr skilningur ráðuneytisins að enginn sé undanþeginn tilkynningaskyldu. „En það er líka skilningur biskups samkvæmt yfirlýsingu sem hann hefur gefið þannig að það er enginn misskilningur á skilningi manna hvað það snertir," segir Ragna. Sú tilkynningaskylda gangi framar öðru.

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um meint brot Ólafs Skúlasonar, fyrrverandi biskups, eftir að dóttir hans lýsti misnotkun hans fyrir Kirkjuráði. Ragna segir að það sé Þjóðkirkjunnar að leysa þessi mál. „Þegar kemur að öðrum málum, meintum agabrotum eða öðru slíku, að þá er það leyst samkvæmt þjóðkirkjulögum," segir Ragna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.