Innlent

Guðrún Norðfjörð ráðin framkvæmdastjóri Listahátíðar

Guðrún Norðfjörð.
Guðrún Norðfjörð.

Stjórn Listahátíðar í Reykjavík hefur ráðið Guðrúnu Norðfjörð í stöðu framkvæmdastjóra Listahátíðar í Reykjavík. Í tilkynningu segir að tuttugu og fjórar umsóknir hafi barist um starfið, en umsóknarfrestur rann út 25. júní síðastliðinn.

Guðrún Norðfjörð hefur MA próf í menningarstjórnun frá Goldsmiths College í London, BA próf í frönsku frá Háskóla Íslands og auk þess próf í markaðs- og útflutningsfræðum og hagnýtri fjölmiðlun frá sama skóla. Guðrún hefur starfað sem framkvæmdastjóri fyrir sjálfstæða leikhópa, markaðsráðgjafi hjá Íslensku auglýsingastofunni og verkefnisstjóri hjá Listahátíð síðastliðin fimm ár. Framkvæmdastjóri Listahátíðar sér um almennan undirbúning hverrar hátíðar, daglegan rekstur, stjórn fjármála og fleira. Guðrún tekur til starfa 1. september næstkomandi.

Listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, Hrefna Haraldsdóttir, er yfirmaður stofnunarinnar og mótar dagskrá hverrar hátíðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×