Íslenski boltinn

Bragi: Telur ekkert ef við kúkum á okkur í næstu leikjum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Agnar Bragi í leik í 1. deildinni í fyrra. Mynd/Matthías Ægisson
Agnar Bragi í leik í 1. deildinni í fyrra. Mynd/Matthías Ægisson

„Þetta þarf ekki að vera fast. Ég er búinn að vera að bíða eftir þessu marki síðan í fyrra," sagði varnarturninn Agnar Bragi Magnússon sem tryggði Selfyssingum sigur á Haukum í botnslag Pepsi-deildarinnar.

Lífsnauðsynlegur sigur hjá Selfossi sem náði að rífa sig fjórum stigum frá Hafnarfjarðarliðinu. Bragi skoraði mark sitt eftir hornspyrnu á 75. mínútu þegar hann skóflaði boltanum upp í þaknetið.

„Ég hef ekkert náð að skora í sumar og Gummi var búinn að hóta mér því að ég fengi ekkert að fara inn í föstum leikatriðum heldur þyrfti að bíða til baka. Það var gaman að sjá boltann inni og ekki verra að það hafi verið sigurmarkið í svona mikilvægum leik," sagði Bragi.

„Við rifum okkur aðeins upp en þessi telur ekki neitt ef við kúkum svo á okkur í næstu leikjum. Við þurfum að taka einn leik fyrir í einu og sjá hvað setur."

„Leikurinn var kaflaskiptur. Þeir sóttu gríðarlega á okkur í byrjun og við vorum í vandræðum með háu sendingarnar en svo eftir að við jöfnuðum og settum annað mark á þá var ekki mikið vesen," sagði Agnar Bragi sem vonar að þessi sigur komi með neista í liðið.

„Þetta erfiða gengi hefur setið þungt á okkur. Krísufundir og svona og breytingar á vörninni. Þetta er frábær tilfinning að ná þessum sigri, minnir aðeins á síðasta tímabil."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×