Innlent

Stefnir í einhver mestu flóð í sögu Skaftárhlaupa

Hlaup í Skaftá. Myndin var tekin í dag.
Hlaup í Skaftá. Myndin var tekin í dag.

Tvö Skaftárhlaup, sem nú koma hvort ofan í annað, eru talin geta valdið mestu flóðum í þekktri sögu þessara náttúruhamfara. Vegir eru farnir í sundur á nokkrum stöðum, varnargarðar hafa brostið og á næstum dögum er búist við að flætt geti yfir hringveginn í Eldhrauni.

Það sem er óvenjulegt er að nú leggjast tvö hlaup saman ofan á sumarhlýindi en búist er við að rennslið nái hámarki í byggð í nótt. Einna hrikalegast er að fylgjast með hamaganginum við bæinn Skaftárdal en þangað hefur ekki verið hægt að komast um þjóðveginn í heila viku. Og svona leit kolmórauð, úfin og ólgandi elfan þar upp úr hádegi.

Það þótti ærið þegar rennslið í fyrra hlaupinu, sem hófst fyrir átta dögum, náði 600 rúmmetrum á sekúndu en talið er að rennslið fari nú upp í 1.500-1.600 rúmmetra á sekúndu, að sögn Snorra Zóphóníassonar hjá vatnamælingum Veðurstofu. Til að setja þessar tölur í samhengi má geta þess að þetta er á við 15-falt rennsli Gullfoss og 300-falt rennsli Elliðaánna.

Skaftá klofnar nokkru neðan Skaftárdals og fer um helmingur hlaupsins niður Eldvatn og þaðan út í Kúðafljót. Bóndinn á Ytri Ásum fylgdist áhyggjufullur með fljótinu í örum vexti í dag.

Talið er að allt að 40 prósent af hlaupvatninu renni út á Skaftáreldahraun en það flóðvatn hafði í dag grafið sundur veginn að bænum Skál. Þessi hluti hlaupsins gæti á miðvikudag eða fimmtudag náð upp á hringveginn í Eldhrauni ofan Hunkubakka. Í Skaftártungu mátti sjá girðingu á floti og þar sjá menn einnig fram á landsspjöll. Og dæmi eru um að varnagarðar hafi látið undan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×