Enski boltinn

Manchester City tókst ekki að komast í toppsætið - tapaði fyrir Everton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Everton-menn fagna hér öðru marka sinna í kvöld.
Everton-menn fagna hér öðru marka sinna í kvöld. Mynd/AP
Manchester City tókst ekki að taka toppsætið af nágrönnum sínum í Manchester United í kvöld og vera á toppnum yfir jólin. Manchester City tapaði 1-2 á heimavelli á móti Everton en gestirnir úr Bítlaborginni höfðu ekki unnið leik síðan 30. október.

Manchester City er því áfram með 32 stig, tveimur stigum á eftir Manchester United en búið að spila tvo fleiri leiki. Everton vann sinn fyrsta sigur í átta leikjum og komst með þessum sigri upp að hlið Stoke í 13. og 14. sæti.

Tim Cahill fékk sannkallaða jólagjöf frá Manchester City vörninni á 4. mínútu þegar hann fékk að skalla boltann í markið óáreittur á markteig eftir fyrirgjöf Seamus Coleman. Áður hafði City-vörnin misst af fyrirgjöf Leighton Baines sem barst síðan á endanum til Coleman.

Leighton Baines kom Everton síðan í 2-0 á 19. mínútu með óvæntu hægri fótar skoti úr teignum eftir sendingu frá Tim Cahill. Baines hóf sóknina og Victor Anichebe átti síðan lykilsendingu inn á Cahill í teignum og Ástralinn lagði hann út á Baines sem kom aðvífandi og skoraði.

Carlos Tevez náði ekki að skora í kvöld.Mynd/AP
Victor Anichebe fékk sitt annað gula spjald á 60. mínútu fyrir brot á Pablo Zabaleta og Everton var því manni færri síðasta hálftíma leiksins. David Moyes, stjóri Everton, var það að undirbúa það að skipta Anichebe útaf fyrir Louis Saha.

Manchester City náði að minnka muninn á 72. mínútu þegar Phil Jagielka varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark eftir sendingu fyrir frá Yaya Toure. David Silva og Adam Johnson höfðu þá opnað Everton-vörnina með laglegu spili.

Manchester City liðið pressaði mikið undir lokin en Tim Howard varði margoft glæsilega í marki Everton og tryggði sínum mönnum öll þrjú stigin. Kolo Toure, varnarmaður Manchester City, endaði síðan leikinn á því að fá tvö gul spjöld í uppbóttartíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×