Lífið

Ég hef greinilega tekið brauðmola frá svöngu fólki

Egill Einarsson er skotspónn félaga úr rithöfundastétt sem vilja ekki að hann fái að taka þátt í gerð Símaskrárinnar. Kristín Helga Gunnarsdóttir og Hallgrímur Helgason hafa sent kvörtunarbréf til Já.is vegna málsins.
Egill Einarsson er skotspónn félaga úr rithöfundastétt sem vilja ekki að hann fái að taka þátt í gerð Símaskrárinnar. Kristín Helga Gunnarsdóttir og Hallgrímur Helgason hafa sent kvörtunarbréf til Já.is vegna málsins.

„Á löngum rithöfundarferli hef ég öðlast þykkan skráp. Þar fyrir utan hef ég auðvitað breitt og sterkt bak. En mér er nóg boðið þegar klíka rithöfunda segir að vinir, lesendur og stuðningsmenn mínir séu með mis­mikið á milli eyrnanna. Að þeir séu heimskir,“ segir Egill „Gillzenegger“ Einarsson rithöfundur.

Undanfarna daga hafa birst fréttir af óánægju með aðkomu Egils að gerð Símaskrárinnar. Nýjustu vendingar í málinu eru þær að Kristín Helga Gunnars­dóttir rithöfundur hefur sent bréf á félaga í rithöfunda­stétt þar sem hún hvetur til þess að þeir láti til sín taka í málinu. „Undirskrifta­söfnun varðandi Egil Einarsson virðist eitthvað að hægja á sér, og margt fólk með lítið á milli eyrnanna er að mæla gegn mótmælunum, það þarf að sækja þetta mál á fleiri vígstöðvum,“ segir í bréfi Kristínar Helgu. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins hefur Hallgrímur Helgason þegar brugðist við ákallinu. Áður höfðu Guðrún Eva Mínervu­dóttir og Gerður Kristný skrifað undir mótmæli á Facebook gegn aðkomu Egils að Símaskránni.

Eins og Fréttablaðið hefur sagt frá bíður Egill þess nú að umsókn hans um inngöngu í Rithöfundasambandið verði tekin fyrir. Ekki verður hjá því komist að tengja þetta tvennt saman; þessi barátta rithöfundanna gegn Agli hlýtur að setja inntökunefndina í undarlega stöðu. Ekki síst þar sem Kristín Helga er stjórnarmaður þar á bæ. „Rithöfundar eru greinilega ekki æstir í að fá mig þarna inn. Þetta fólk er sem betur fer ekki í inntökunefndinni. En þetta mál er allt hið undarlegasta því það lítur út fyrir að það megi bara sumir skrifa á Íslandi en aðrir ekki og það er ískyggilegt að búa í þannig landi,“ segir Egill, sem furðar sig á þessum æfingum með tjáningarfrelsið.

Aðspurður segist Egill ekki vita hvað búi að baki þessari óánægju með aðkomu hans að Símaskránni. „Eina skýringin sem ég finn er að þeir hafi ekki sjálfir fengið þennan samning, þetta eftirsótta verkefni að gera Símaskrána. Ég hef greinilega verið að taka brauðmola frá svöngu fólki.“ - hdm

g





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.