Innlent

Leðurblökukona gefur Bandaríkjamönnum íslenskar pylsur

SB skrifar
Gerri Griswold gengur undir nafninu Leðurblökukonan í Bandaríkjunum.
Gerri Griswold gengur undir nafninu Leðurblökukonan í Bandaríkjunum.
Bandarískur ferðalangur sem elskar Ísland mun halda fyrirlestur um Ísland þann 17. júlí næstkomandi í Connecticut. Konan, sem heitir Gerri Griswold, hefur ferðast reglulega til Íslands í áratug. Á kynningunni mun hún meðal annars gefa fólki sýnishorn af íslenskum pylsum og sýna myndir úr ferðum sínum.

Gerri Griswold gengur undir nafninu Leðurblökukonan í Bandaríkjanum vegna áhuga hennar og ástríðu að uppfræða almenning um leðurblökur og hlutverk þeirra í vistkerfinu. Gerri er þó einnig mikill aðdáandi Íslands en hún heimsótti fyrst Ísland ásamt eiginmanni sínum, Eddie Greb-Lasky, fyrir um áratug síðan.

Fyrirlestur Gerri verður haldin þann 17. júlí næskomandi og heitir: „A Fair with Iceland: Iceland Affair." Þar mun hún sýna ljósmyndir úr ferðum sínum, gefa fólki að smakka íslenskan mat og sýna dæmi um íslensk dýr sem finna má í Bandaríkjanum. Þá heitir einn fyrirlestur: „Víkingurinn innra með þér kallar."

„Íbúar Íslands eru aðeins um 300 þúsund og þeir eru afkomendur víkinga," segir Gerri í frétt Foothills Media Group um málið. „Þeir námu þessa eyju fyrir 1000 árum og tungumál þeirra er eitt það elsta í heimi. Íbúarnir elska landið og dýrin sem þar búa og vita hve mikilvægt er að vernda umhverfið."

Gerri bætti svo við: „Svíar líta til Íslands og sjá glötuð tækifæri."

Í viðtalinu hrósar Gerri flugvellinum í Reykjavík og segir það ótrúlegt að hægt sé að fljúga inn í höfuðborgina, njóta góðs matar, skemmtunar og menningar, en yfirgefa svo borgina og vera tíu mínútum síðar í villtri náttúrunni. „Þar finn ég minn innri frið."

Á þessum sérstaka Íslandsdegi sem leðurblökukonan Gerri stendur fyrir verður einnig boðið upp á íslenskar veitingar. Í fréttinni segir Gerri að hún muni deila með fólki mat sem hún tók með sér heim til Bandaríkjanna eftir síðustu heimsókn hennar til Íslands. Í boði verða íslenskar pylsur, súkkulaði, reyktur fiskur, ostur og fleira góðgæti.

„Þú hefur ekki fengið þér alvöru pylsu (hot dog innsk blm.) fyrr en þú hefur smakkað eina með öllu frá Íslandi," segir Gerri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×