Innlent

Endurheimtu húsið úr höndum Arion banka

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Eftir gengislánadóma Hæstaréttar hefur 6 manna fjölskylda í Hafnarfirði endurheimt húsið sitt úr höndum Arion banka - sem keypti það á nauðungarsölu í vor. Uppboðið var ógilt nú í vikunni.

Eftir hæstaréttardómana er staða allmargra heimila og fyrirtækja gjörbreytt - þótt enn sé óvissa um vaxtakjör. Nú eru fyrstu mánaðamótin eftir dómana og við tókum því hús á fjölskylduföður í Hafnarfirði sem missti húsið sitt í vor eftir að hann hætti að greiða af stökkbreyttu myntkörfuláni.

Húsið þeirra var um 50 milljóna króna virði þegar þau tóku lánið og þau hættu að borga þegar lánið óx húsinu langt yfir höfuð. Nú hefur maðurinn hins vegar endurheimt húsið sitt þökk sé formgalla á nauðungarsölunni.

„Það fór fram nauðungarsala á húsinu og við misstum það," segir Vilhjálmur en Vilhjálmur og kona hans tóku 26 milljónir króna að láni á sínum tíma.

„Maður getur ekki lýst því hvernig þetta hefur verið, það hafa verið svo miklar sveiflur, og svo ofboðsleg reiði. Það er fullt af fólki hérna úti, sem nýtur ekki svona gæfu, það eru hjónaskilnaðir og fólk að slást fyrir framan börn og þaðanaf verra."

Vilhjálmur segir stöðuna í dag þá að þau hjónin eigi húsið. „Nú erum við með allt aðra samningsstöðu og getum farið að semja um okkar skuldir."

















Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×