Innlent

Dómsmálaráðherra fundar með biskupi

Karl Sigurbjörnsson
Karl Sigurbjörnsson

Ragna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra, fundar í dag með Karli Sigurbjörnssyni biskupi um málefni þjóðkirkjunnar. Tilefnið segir Ragna vera þau ummæli Geirs Waage, sóknarprests í Reykholti, að þagnarskylda presta sé hafin yfir landslög, jafnvel í tilfelli kynferðisbrota gegn börnum.

Að sögn Rögnu munu hún og Karl einnig ræða almennt um aðkomu ráðuneytisins að málefnum þjóðkirkjunnar, en í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar segir að Þjóðkirkjan njóti sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka. „Svo virðist vera sem ráðuneytið hafi ekki eftirlit með því hvort starfsmenn kirkjunnar fari að lögum eða ekki. Hins vegar er nauðsynlegt að ganga úr skugga um að sá skilningur sé réttur. Ég hef engan vilja til að hlaupast undan ábyrgð í þessu máli, en það þarf að vera skýrt hver ábyrgð ráðuneytisins er samkvæmt lögum," segir Ragna.

Biskup Íslands sendi á laugardag frá sér yfirlýsingu þar sem hann mótmælir ummælum Geirs. Karl segir fyrirmæli barnaverndarlaga taka af öll tvímæli um tilkynningaskyldu presta, að hún gangi framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu. Í kjölfar ummæla Geirs kallaði Bjarni Karlsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju, og fleiri prestar eftir því að biskup leysti Geir frá störfum. Hrefna Friðriksdóttir, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, telur að biskup kunni að hafa tilefni til að áminna Geir eða víkja honum úr starfi.

Ennfremur sendi Karl Sigurbjörnsson biskup frá sér yfirlýsingu seint í gær, þar sem hann vísar því á bug að hafa reynt að þagga niður mál Sigrúnar Pálínu Ingvadóttur á hendur Ólafi Skúlasyni, þáverandi biskupi, árið 1996.

Að sögn Rögnu stendur ekki til að ræða það mál á fundi hennar og biskups í dag. „Ég þekki það mál ekki nógu vel. Þetta virðist vera löng saga og ekki ljóst hverjir vissu hvað og hvenær, svo ég tjái mig ekki um það," segir Ragna. Spurð hvort þjóðkirkjan hafi beðið álitshnekki síðustu daga segist Ragna þurfa að kynna sér málið betur áður en hún tjái sig um það.

kjartan@frettabladid.is

Ragna Árnadóttir
Geir Waage


prestastefna Í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar segir að þjóðkirkjan njóti sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×