Innlent

Hrottinn í Laugardal ófundinn

Maður sem um hábjartan dag réðst á sextán ára gamla stúlku að tilefnislausu í Laugardalnum er ófundinn og er málið óupplýst. Stúlkan er á batavegi. Stúlkan var að ganga heim úr skólanum, Fjölbrautaskólanum í Ármúla, og stytti sér leið í gegnum Laugardalinn þegar maðurinn réðst á hana upp úr þurru síðdegis hinn 11. október síðastliðinn.

Stúlkan, sem var með alvarlega áverka, komst við illan leik upp á Suðurlandsbraut þar sem vegfarandi kom henni til aðstoðar og hringdi á sjúkrabíl. Í kjölfarið leituðu lögreglubílar og lögreglumenn á mótorhjólum að manninum í Laugardalnum og víðar, án árangurs.

Stúlkan var með alvarlega áverka, en er í dag á batavegi. Í fyrstu var talið að árasarmaðurinn hefði notað grjóthnullung við verknaðinn, en nú telur lögregla að einhvers konar barefli hafi verið notað, lurkur eða stöng úr hörðum málmi, að sögn Björgvins Björgvinssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan lýsti eftir manninum á grundvelli þeirra upplýsinga sem stúlkan veitti en þær ábendingar sem bárust gátu ekki hjálpað við að upplýsa málið. Maðurinn er 170 sentimetrar á hæð, skolhærður og meðalmaður að vexti. Hann var klæddur í dökkan jakka eða peysu og í hvítum skóm með rauðum röndum þegar hann réðst á stúlkuna.

Vegna þeirrar hættulegu aðferðar sem maðurinn beitti við árásina og þeirra áverka sem hann veitti stúlkunni er litið svo á að um alvarlega líkamsárás sé að ræða í skilningi 218. gr. almennra hegningarlaga. Óvíst er hins vegar hvort maðurinn finnist nokkurn tímann.

Ekki er vitað hvað vakti fyrir árásarmanninum, en hann hafði ekki kynferðislega tilburði í frammi gagnvart stúlkunni og gerði ekki tilraun til að hafa af henni verðmæti.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×