Innlent

Biskupinn í Kastljósinu: Ætla ekki að segja af mér

Karl Sigurbjörnsson biskup sat fyrir svörum í Kastljósinu í kvöld.
Karl Sigurbjörnsson biskup sat fyrir svörum í Kastljósinu í kvöld.

Karl Sigurbjörnsson neitar því að hafa hvatt konurnar, sem sökuðu Ólaf Skúlason fyrrverandi biskup um kynferðisofbeldi, að draga ásakanir sínar til baka. Hann segist ekki rengja sögu Guðrúnar Ebbu, dóttir Ólafs Skúlasonar, sem jafnframt sakaði biskupinn um kynferðisofbeldi. Karl sagði í Kastljósviðtalinu ekki telja ástæðu til að hann stigi til hilðar.

„Ég vísa því algjörlega á bug að ég hafi beitt þessar konur þrýstingi. Ég fór inn í þetta mál á þeim forsendum að styðja það og koma á sátt í málinu en sú tilraun bar ekki árangur," sagði Karl Sigurbjörnsson biskup í viðtali í Kastljósinu nú í kvöld spurður út í atburðina árið 1996 þegar tvær konur sökuðu Ólaf Skúlason um kynferðisofbeldi.

Eitthvað „hræðilegt" gerðist

Sigrún Pálína Ingvarsdóttir hefur lýst því að eftir misheppnaðar sáttatilraunir við Ólaf Skúlason hafi Karl Sigurbjörnsson og Hjálmar Jónsson, núverandi Dómkirkjuprestur, reynt að þagga niður í henni. Karl hafi meðal annars vísað til þess að hún ekki gert sjúkri móður sinni það að halda málinu til streitu.

Karl sagði í viðtalinu að ýmislegt í frásögn Sigrúnar stæðist ekki. „Ég harma það virkilega að það skuli vera konur sem bera það innra með sér að ég hafi beitt þær þrýstingi, það finnst mér sárt að vita af," sagði Karl.

Spurður hvort hann trúði frásögn kvennana en Sigrún var ein þriggja kvenna sem steig fram 1996 ári áður en Ólafur Skúlason sagði af sér biskupsembætti og greindi frá því að hann hafði áreitt sig kynferðislega sagði Karl:

„Eitthvað hræðilegt hefur gerst, eitthvað hefur gerst sem hefur hvílt á þeim síðan. Ég get ekki véfengt það."

Rengir ekki sögu Guðrúnar Ebbu

Karl var þá spurður hvort hann trúði frásögn Guðrúnar Ebbu, dóttir Ólafs Skúlasonar, sem lýsti fyrir kirkjuráði því kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir af hendi föður síns. Karli varð orða vant og sagði vanda að svara spurningunni.

„Ég vil bera virðingu fyrir hennar sögu, hún kemur fram og flytur sitt mál og það er vandi að svara þessu. Ég hef engar forsendur til að rengja hana," sagði Karl. Spurður aftur hvort svarið við spurningunni væri ekki já, fyrst hann rengdi ekki frásögn hennar, sagði Karl:

„Við verðum að taka allt svona alvarlega, þá kvöld sem þarna býr að baki, þetta er sálarmorð og á ekki að líðast og samfélagið á að standa vörð um að ekkert barn verði fyrir slíku."

Ætlar ekki að segja af sér

Karl sagði að hann myndi ræða við Geir Waage sóknarprest út af túlkun hans á þagnarskyldu presta og sagði skýrt að sú þagnarskylda væri ekki yfir barnaverndarlög hafin. „Hann verður að lúta lögum íslenska lýðveldisins, hann er skyldugur að gera það og það mun hann áreiðanlega gera," sagði Karl.

Spurður út í hugmyndir Sigríðar Guðmundsdóttir sóknarprests, sem stakk upp á því í dag að skipuð yrði sannleiksnefnd til að skoða mál Ólafs Skúlasonar fyrrverandi biskups, sagði Karl að hann hefði rætt þá hugmynd við dómsmálaráðherra. „Þetta er flókin leið en athyglivert að skoða."

Karl ítrekaði að það væri hörmulegt að vita til þess að það væri hópur fólks úti sem sæti uppi með sár og sorg vegna framkomu kirkjunnar manna. Hann harmaði það frá hjartarótum en taldi ekki ástæðu til að stíga sjálfur til hliðar.

„Ég tel ekki að ég hafi gert það af mér að það verðskuldi að ég segi af mér. Ég mun ekki á þessu stigi gera það," sagði Karl.

Það var Þóra Arnórsdóttir sem ræddi við Karl Sigurbjörnsson í Kastljósinu í kvöld.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×