Lífið

Óskarsverðlaunahafi veðjar á Sigur Rós

Sigur Rósar drengirnir eru vinsælir í Hollywood og breski leikstjórinn Danny Boyle notar lagið þeirra Festival til að galdra fram hughrif á lokametrum kvikmyndarinnar 127 Hours.
Sigur Rósar drengirnir eru vinsælir í Hollywood og breski leikstjórinn Danny Boyle notar lagið þeirra Festival til að galdra fram hughrif á lokametrum kvikmyndarinnar 127 Hours.

„Við höfum kannski ekki verið tregir, ef við höfum góða tilfinningu fyrir verkefninu þá leyfum við það, annars ekki. Þarna var þetta bara Danny Boyle og það nægði – allavega fyrir mitt leyti,“ segir Georg Holm, bassaleikari íslensku hljómsveitarinnar Sigur Rós. Óskarsverðlaunahafinn Danny Boyle notar lagið Festival af plötunni Með suð í eyrum við spilum endalaust í nýjustu kvikmynd sinni 127 Hours. Og það sem meira er, Danny Boyle notar lagið þegar dramatíkin í myndinni nær hámarki.

„Lagið er langt, svolítið tvískipt og ég held, án þess að vilja fullyrða það, að hann noti kraftmeiri kaflann,“ segir Georg, sem var á rjúpnaveiðum þegar Fréttablaðið náði tali af honum.

Myndin fjallar um mann sem situr fastur undir kletti og skartar James Franco í aðalhlutverki. Myndin hefur fengið frábærar viðtökur á forsýningum en 127 Hours er beðið með mikilli eftirvæntingu enda fyrsta kvikmynd Boyles frá því að Slumdog Millionaire fór sigurför um heiminn og hreppti meðal annars átta Óskars­verðlaun og sjö Bafta-verðlaun. Georg segir misjafnt hvað þeir fái fyrir sinn snúð. Þeir hafi stundum leyft notkun ókeypis en ef um er að ræða kvikmynd frá Hollywood sé borgað eftir ákveðnum taxta. Höfundur tónlistar í myndinni er A.R. Rahman en sjálfur Bill Withers á einnig lag í myndinni, hann syngur lagið sitt Lovely Day. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.