Innlent

Ofgreidd lán líklega ekki endurgreidd

Ólíklegt er að þeir viðskiptavinir eignaleigufyrirtækisins Avant sem hafa greitt of mikið af bílalánum sínum fái endurgreitt nú þegar óskað hefur verið eftir því að Fjármálaeftirlitið skipi bráðabirgðastjórn yfir félagið. Þetta segir Heimir Haraldsson, stjórnarformaður móðurfélagsins Askar Capital.

Stjórn Askar Capital samþykkti í gær að óska eftir slitameðferð á félaginu. Samhliða því kom ósk stjórnar Avant um að Fjármálaeftirlitið skipi bráðabirgðastjórn yfir félagið. Í fréttatilkynningu frá Askar Capital kemur fram að nýlegur dómur Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar lána hafi mikil áhrif á efnahag fyrirtækjanna. Eignir Avant hafi verið metnar á um 23 milljarða króna 31. maí síðastliðinn en eftir dóminn séu þær metnar á bilinu níu til þrettán milljarða króna eftir því hvaða vaxtaviðmiðun er notuð.

Enn fremur segir í fréttatilkynningunni að vegna óvissu um vaxtaútreikningana hafi kröfuhafar ekki komist að niðurstöðu um fjárhagslega endurskipulagningu Avant. Þar sem endurskipulagningin er óvissu háð og eiginfjárstaða félagsins neikvæð um að lágmarki tíu milljarða telur stjórn félagsins sig ekki hafa umboð til áframhaldandi setu.

Staða Askar Capital er mjög háð afkomu Avant. Eiginfjárstaða Askar var metin jákvæð um 3,5 milljarða hinn 31. maí síðastliðinn en í kjölfar dómsins er hún talin neikvæð um 3,5 milljarða þar sem sjö milljarða króna krafa á Avant er talin töpuð. Þar sem ekki liggur fyrir samkomulag við kröfuhafa um endurskipulagningu hefur stjórn Askar því samþykkt að óska eftir slitameðferð á félaginu.

FME sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi um að bráðabirgðastjórnin hefði verið skipuð. Í henni sitja Friðjón Örn Friðjónsson hæstaréttarlögmaður, sem verður formaður, Hulda Rós Rúriksdóttir hæstaréttarlögmaður og Ljósbrá H. Baldursdóttir, löggiltur endurskoðandi.

Starfsmenn Askar Capital eru 23 og missa nú allir vinnuna. Að sögn Benedikts Árnasonar forstjóra er hins vegar líklegt að einhverjir starfsmannanna taki sig saman um stofnun fyrirtækis sem muni halda áfram að þjónusta einhverja viðskiptavini bankans, sem eru á fjórða tug fjárfesta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×