Innlent

Skorið úr um rækjukvóta í næsta mánuði

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Jón Bjarnason Fulltrúar Landssambands íslenskra útvegsmanna gengu á fund ráðherra í sjávarútvegsráðuneytinu í gær og fóru fram á að hann endurskoðaði ákvörðun sína um að gefa frjálsar veiðar á úthafsrækju.
Jón Bjarnason Fulltrúar Landssambands íslenskra útvegsmanna gengu á fund ráðherra í sjávarútvegsráðuneytinu í gær og fóru fram á að hann endurskoðaði ákvörðun sína um að gefa frjálsar veiðar á úthafsrækju. Fréttablaðið/Anton
Sjávarútvegsráðherra upplýsir í næsta mánuði hvort ákvörðun hans um að gefa veiðar á úthafsrækju frjálsar á veiðiárinu 2010/2011 standi. Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, fundaði í gær um málið með fulltrúum Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ).

Friðrik Jón Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir að farið hafi verið yfir stöðu málsins á fundinum og ráðherra kynnt afstaða og röksemdir LÍÚ. Sambandið telur ákvörðun um að gefa veiðarnar frjálsar ólögmæta. „Við fórum þess á leit við ráðherrann að hann endurskoði þessa ákvörðun sína, en það verður svo bara að koma í ljós,“ segir hann.

Þá segir Friðrik ákvörðun ráðherra um að gefa veiðarnar frjálsar að stórum hluta byggða á misskilningi. „Við fórum yfir af hverju aflamarkið hefur ekki veiðst, en fyrst og fremst hefur það verið vegna þess að það hefur ekki verið arðbært. En það hefur skánað og nú er þetta að veiðast. Þannig að í ljósi þessa erum við bara bjartsýnir á að ráðherrann breyti þessari afstöðu sinni.“ Friðrik hefur eftir ráðherra að farið verði yfir málið í ágúst.

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður, sem fjallar um málið á vef sínum, furðar sig hins vegar á að veiðarnar skuli ekki hafa verið gefnar frjálsar fyrr. Hann segir að samkvæmt lögum beri ráðherra að gefa veiðar frjálsar séu útgefnar veiðiheimildir ekki nýttar. Hann segir fyrrverandi ráðherra hafa virt lögin að vettugi og sýnt einbeittan brotavilja enda hafi legið fyrir í mörg ár að úthafsrækjustofninn hafi verið vannýttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×