Innlent

Borgarstjóri Árósa: Reykjavík getur unnið gegn efnahagssamdrætti

Borgarstjóri Árósa segir Reykjavíkurborg hafa hlutverki að gegna við að vinna gegn atvinnuleysi og efnahagssamdrætti. Í Árósum er atvinnuleysi talsvert minna en gengur og gerist í Danmörku.

Nicolai Wammen, borgarstjóri Árósa og varaformaður danska jafnaðarmannaflokksins, er í heimsókn til Reykjavíkur á vegum systurflokksins Samfylkingarinnar. Hann var sérstakur gestur á fundi um um hlutverk borga og bæja við að koma þjóðinni út úr kreppunni í Norræna húsinu í gær.

Í Árósum er atvinnuleysi um þrjú prósent, sem er talsvert minna en í Danmörku á landsvísu, þar sem atvinnuleysi er yfir sex prósent. Wammen kemur því með sitt innlegg í umræðuna um hvað Reykjavík geti gert til að draga úr atvinnuleysi og komast út úr kreppunni.

„Ég tel að það sé mjög mikilvægt að hafa áætlun um atvinnuuppbyggingu, flýta framkvæmdum t.d. við skóla og leikskóla og fá þannig hjólin til að snúast og fjölga störfum. Það er áhrifaríka leiðin til að berjast við kreppuna," segir Wammen.

Aðspurður hvernig honum lítist á háðframboð Besta flokksins, sem nær hreinum meirihluta í borginni samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum, segir Wammen.

„Ég ætla ekki að blanda mér í skoðanaskipti hérna í Reykjavík en ég held að um allan heim, og líka hér á Íslandi, gildi það að alvarleg vandamál kalli á alvarleg svör," segir Wammen.

Hann var annars ánægður með daginn í Reykjavík, en hann kynnti sér stjórnsýslu borgarinnar og fór yfir stöðu efnahagsmála og skellti sér svo í heitu pottana.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×