Innlent

Skýrsla um Álftanes eftir kosningar

Eftirlitsnefnd hefur umsjón með fjármálum Álftaness eftir að þau fóru í hnút á þessu kjörtímabili.
Fréttablaðið/GVA
Eftirlitsnefnd hefur umsjón með fjármálum Álftaness eftir að þau fóru í hnút á þessu kjörtímabili. Fréttablaðið/GVA

Ríkisendurskoðun segir að niðurstöður athugunar á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins Álftanes muni ekki verða kynntar fyrr en um miðjan júní.

„Það er mjög óþægilegt og ómögulegt ef niðurstaða rannsóknar liggur ekki fyrir í tæka tíð fyrir kosningar 29. maí nk. Þessi rannsókn hefði ekki verið framkvæmd, nema alvarlegar ástæður lægju að baki að mati Eftirlitsnefndar,“ bókaði Guðmundur G. Gunnarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, af þessu tilefni í bæjarstjórn Álftaness.

„Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á að rannsókn Ríkisendurskoðunar nær líka til þess tíma sem GGG starfaði sem bæjarstjóri á Álftanesi. Ef taka ætti mark á stóryrðum hans í bókuninni verður að álykta að rannsókn á stjórnsýslu áranna 2005-2006 í hans tíð tengist með sama hætti grunsemdum um lögbrot,“ svaraði Sigurður Á. Magnússon, bæjarfulltrúi Á-listans og bæjarstjóri þar til í fyrrahaust.

Það voru sveitarstjórnarráðuneytið og Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) sem fólu Ríkisendurskoðun að gera athugunina. Hún átti annars vegar beinast að því hvort gildandi reglur um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna reksturs grunnskóla tækju nægjanlegt tillit til aðstæðna á Álftanesi. Hins vegar ætti athugunin að beinast að því hvaða ákvarðanir væru undirrót erfiðrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og hvort þær og upplýsingagjöf þess til EFS hefðu verið í samræmi við lög.

„Enn á eftir að ræða við nokkra aðila og greina upplýsingar en segja má að sú vinna sé á lokastigi,“ segir í tilkynningu frá ríkisendurskoðanda. - gar



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×