Lífið

Má ég koma heim?

Á nýrri plötu Erps er 21 lag og sjálfur segist hann aldrei hafa verið eins hreinskilinn.fréttablaðið/pjetur
Á nýrri plötu Erps er 21 lag og sjálfur segist hann aldrei hafa verið eins hreinskilinn.fréttablaðið/pjetur

Erpur Eyvindarson fer öfganna á milli í textunum á fyrstu sólóplötu sinni. Segja má að platan skiptist í þrjá hluta: Djamm, pólitík ásamt hluta þar sem við heyrum mýkri hlið á rapparanum sem er aldrei kjaftstopp.

„Þegar maður er að fá sér, þarf að tala um það. Þegar maður er í frænkunum, þarf að tala um það. Þegar maður er að mótmæla þarf að tala um það og þegar maður þarf að skrifa eitthvað til að koma hlutunum frá sér á persónulegum nótum, þá gerir maður það," segir rapparinn Erpur Eyvindarson.

Erpur sendi nýlega frá sér plötuna Velkomin til Kópacabana. Platan er stór í sníðum, inniheldur 21 lag sem tekur meira en klukkutíma að spila. Erpur byrjaði að vinna að plötunni fyrir tæpum fjórum árum og fer öfganna á milli í textagerðinni. Hann hefur oft verið gagnrýndur fyrir grófa texta og í laginu 112 stendur hann undir nafni:

Blaz Roca er halinn sem

börnin þín fíla, því að,

ég kenni þeim að ríða,

fýra og dett'íða

Fjórfingra þig físa, fyrir

kynslóðina mína

Ég er Blaz Roca bíaaa,

étum krakkana þína

„Þetta er rosalega mikið fokk jú-lag," útskýrir Erpur. „Eins og hann Dabbi T segir í þessu lagi: „Dabbi T og hinn alræmdi Erpur - ástæðan fyrir því að barnið þitt drekkur." Þetta er náttúrulega bull. Krakkar voru að drekka löngu áður en ég byrjaði að rappa. Það er svo mikil einföldun að kenna alltaf tónlistinni um. Þetta snýst svolítið mikið um það."

Þannig að þetta er hæðni?

„Já. Bara pönk - að hræða lið sem er svo hysterískt að það meikar ekki sens. Sumir fatta ekki að foreldrar ala upp krakka, ég get ekki alið upp krakka annarra."

Erpur fer út í persónulega og mjúka sálma í lögunum Framhaldið, Má ég koma heim? og Má ég koma aftur heim? Sem dæmi um það er hér textabrot úr Má ég koma heim?:

Hún er á maraþon túr

og rústa heilli íbúð

en ég sver upp á þennan púng

að ég hef alltaf verið trúr

Ég bara hata að vera þekktur

Af því ég er Erpur

Þá hlýt ég að vera að

negla aðrar stelpur

Mér finnst ég sjá nýjan Erp þarna. Þetta kom mér svolítið mikið á óvart.

„Það finnst mér líka. Uppáhaldslagið á plötunni minni er Má ég koma heim? og það hafa margir sagt það sama. Þetta er allt nýtt og mun meira fullorðins. Maður verður alltaf að gera eitthvað nýtt, þó ég þurfi líka að skila ákveðnum hlutum til þeirra sem hafa fylgst mest með mér og hafa mest gaman af mér. Það eru hlutir eins og samfélagsleg ádeila í lögum eins og Stórasta landið, Hleraðu þetta, Landráð og Reykjavík Belfast."

Erpur útskýrir að það sé miklu persónulegra að gera sólóplötu heldur en þær sem hann hefur gert t.d með hljómsveitinni XXX Rottweiler.

„Þegar ég fer með Rottweiler í stúdíó get ég ekki sagt: „Strákar, munið þið eftir henni Gunnu? Eigum við ekki að rappa aðeins um hana?" Þess vegna hef ég ekki gert þetta áður. Í bandi er miklu meiri málamiðlun um þemað. Þetta er lang persónulegasta platan mín og þetta er bara real shit.

Beint frá hjartanu?

Já. Þetta er það hreinskilnasta sem ég hef gert opinberlega."

Þannig að þú hefur lent í því sem þú rappar um í þessum texta?

„Já, þetta er mjög klassískt, sko. Ógeðslega klassískt hallæri. En það eru kostir og gallar og þetta er einn af göllunum. Það finnst engum að gæjar eins og ég og fleiri getum verið slakir heima á laugardagskvöldi að spila í PlayStation. Maður þarf alltaf að vera einhvers staðar að láta sjúga sig."

Þú ert ekki að gera mikið til að kveða það niður!

„Ég er ekkert að stressa mig á því hvað fólk heldur. En ef þetta er að trufla samskipti manns við einhvern sem skiptir máli þá er það fáránlegt. Ég er samt ekki að segja að það sé neitt að því að láta sjúga sig öll laugardagskvöld - ég er bara alltaf ekki að því."

atlifannar@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.