Lífið

Kristmundur Axel með nýtt lag

Kristmundur Axel og Elín Lovísa voru að senda frá sér lagið Það birtir alltaf til. Elín Lovísa er yngri systir Klöru úr Nylon. Í bakgrunni eru upptökustjórarnir í Stop Wait Go.Fréttablaðið/Vilhelm
Kristmundur Axel og Elín Lovísa voru að senda frá sér lagið Það birtir alltaf til. Elín Lovísa er yngri systir Klöru úr Nylon. Í bakgrunni eru upptökustjórarnir í Stop Wait Go.Fréttablaðið/Vilhelm
„Þetta er mjög gott lag, svo vonandi gengur þetta upp hjá okkur,“ segir Kristmundur Axel Kristmundsson sem frumflutti lagið „Það birtir alltaf til“ á tónlistarstöðinni FM 957 í gær. Kristmundur Axel sló í gegn í Söngkeppni framhaldsskólanna síðasta vor þegar hann rappaði lag um pabba sinn.

Kristmundur hefur síðustu mánuði fylgt eftir vinsældum lagsins, Komdu til baka, en nú er hann tilbúinn að taka næsta skref. Með honum syngur Elín Lovísa Elíasdóttir, en hún er yngri systir söngkonunnar Klöru Óskar Elíasdóttur sem söng með Nylon en er nú í söngflokknum The Charlies. „Elín Lovísa er rosalega góð og það var gaman að vinna með henni,“ segir Kristmundur.

Elín sjálf var ekki viðstödd í hljóðveri FM 957 þegar lagið var frumflutt. „Ég var ekki á staðnum en var með stillt á FM og fannst þetta æði,“ segir Elín Lovísa. Klara Ósk, systir Elínar, er löngu orðin þekkt innan tónlistargeirans og því athyglisvert að vita hvort Elín stefni hærra en systir sín. „Ef þetta lag slær í gegn er aldrei að vita hvað tekur við. Er hægt að verða eitthvað frægari en hún?“ segir Elín og hlær.

Kristmundur Axel segist ekki vita hvort von sé á fleiri lögum frá honum. „Við byrjum bara á þessu og sjáum svo til hvað gerist.“

Það voru strákarnir í Stop Wait Go sem sáu um útsetninguna á laginu en þeir hafa verið að útsetja lög fyrir The Charlies, Frikka Dór, Haffa Haff, Steinda jr. og fleiri.- ka





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.