Innlent

Rannsóknarnefnd yfir Reykjavíkurborg samþykkt

„Við þurfum að endurheimta traust almennings og því liggur beint við að skipa rannsóknarnefnd. Og þá dugir enginn kattaþvottur," segir Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstri grænna, en tillaga hans um að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd yfir Reykjavík, var samþykkt á Borgarráðsfundi í dag.

Um er að ræða nefnd sem er sambærileg rannsóknarnefnd Alþingis og færi meðal annars yfir stjórnsýslu borgarinnar og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum með tilliti til þess hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum.

Þá verður einnig kannað hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.

Tillagan um nefndina verður lögð fyrir borgarstjórn eftir tvær vikur til endanlegrar samþykktar. Svo er stefnt að því að nefndin verði skipið 1. júní næstkomandi og að hún ljúki verki sínu 31. desember.

Samkvæmt Þorleifi þá er stefnt að því að nefndin skoði tvö síðustu kjörtímabil.

Í greinagerð sem fylgdi tillögu Þorleifs kemur fram hvaða þætti nefndin muni rannsaka. Þeir eru eftirfarandi:

-Að kanna stjórnsýslu borgarinnar og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum með tilliti til þess hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum.

-Að kanna hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.

-Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafa beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar ákvarðanir og stjórnsýslu borgarinnar.

-Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafi hagnast á tengslum við borgina og einstaka embættismenn eða borgarfulltrúa.

-Að kanna hvort einstakir embættismenn, borgarfulltrúar eða frambjóðendur til borgarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við borgina.

-Að koma með ábendingar og tillögur að breytingum á reglum, vinnubrögðum og skipulagi stjórnsýslu borgarinnar eða eftir atvikum að koma fram með ábendingar um breytingar á þeim lagaramma sem sveitarfélögin starfa eftir.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.