Innlent

Skuldafyrning gæti umbylt samfélaginu

horft yfir miðbæ höfuðborgarinnar Fari svo að fjármálafyrirtæki verði treg til lánveitinga sökum þess hversu auðvelt verði að gera skuldir sínar að engu mun fólk búa í minna húsnæði en áður og aka um á eldri bílum en í dag, samkvæmt framtíðarsýn greiningardeildar Arion banka.Fréttablaðið/vilhelm
horft yfir miðbæ höfuðborgarinnar Fari svo að fjármálafyrirtæki verði treg til lánveitinga sökum þess hversu auðvelt verði að gera skuldir sínar að engu mun fólk búa í minna húsnæði en áður og aka um á eldri bílum en í dag, samkvæmt framtíðarsýn greiningardeildar Arion banka.Fréttablaðið/vilhelm

Stjórnarfrumvarp um styttri fyrningartíma skulda við gjaldþrot – niður í tvö ár – gæti umbylt íslensku fjármálakerfi og þjóðlífi.

Þetta eru í stórum dráttum vangaveltur greiningardeildar Arion banka um frumvarp forsætis- og fjármálaráðherra sem boðað var á þriðjudag.

Greiningardeildin bendir á að til skemmri tíma styrki frumvarpið stöðu skuldara, það geti komið í veg fyrir gjaldþrot og létt á skuldavanda heimilanna.

Á hinn bóginn gætu margir ákveðið að fara gjaldþrotaleiðina. Við það aukist framboð á fasteignamarkaði og eftirspurn dragist saman. Það geti haft í för með sér verri eiginfjárstöðu íbúðareigenda, sem geti leitt til tregðu fjármálafyrirtækja til lánveitinga. Í kjölfarið geti gjaldþrotum fjölgað.

Deildin bendir á að íslensk heimili beri ýmsar aðrar skuldir en húsnæðislán. Hafi fólk möguleika á því að þurrka út skuldir gagnvart Lánasjóði íslenskra námsmanna, kreditkortafyrirtækjum og fleiri með tveggja ára útlegð geti það haft í för með sér grundvallarbreytingar á íslenskum þjóðháttum.

Í kjölfarið verði erfiðara að afla lánsfjár, meira verði um eldri bíla en nú og fólk búa í smærri íbúðum en áður. Tekið er fram í umfjölluninni að enn eigi eftir að kynna frumvarpið og því er ekki ljóst hvernig lögin verði útfærð. jonab@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×