Innlent

„Heppnir að sleppa lifandi"

SB skrifar
Hér má sjá reykinn stíga upp úr skipinu.
Hér má sjá reykinn stíga upp úr skipinu. Mynd/Gunnar Már Ólafsson

Gunnar Már Ólafsson vélvirki var um borð í þýska togaranum Kiel þegar eldur kom upp í vélarrúmi skipsins fyrr í dag. Gunnar heyrði viðvörunarbjöllur hljóma og sá allt í ljósum logum. Hann segist heppinn að hafa sloppið í tíma.

„Við vorum þrír að vinna í kælikerfinu þegar ég heyri í viðvörunarbjöllum. Stuttu seinna var allt í ljósum logum," segir Gunnar. Vélarrými skipsins er á tveimur hæðum og kom eldurinn upp á efri hæðinni. Gunnar var ásamt þremur félögum sínum við vinnu á neðri hæðinni og tókst að láta félaga sína vita þegar eldurinn kom upp.

„Ég kallaði á félaga mína og við náum í slökkvitæki. Við rétt náum að sprauta á eldinn þegar allt var orðið svart af reyk og við sluppum út með því að halda niðri í okkur andanum. Á tímabili sáum við ekki neitt."

Gunnar segir engan vita nákvæmlega hvað hafi gerst. Slökkviliðið hafi verið fljótt á vettvang en í tilfelli hans og vinnufélagana hafi ekki mátt á tæpara standa. „Ef ég hefði ekki farið upp í stjórnklefan til að athuga með viðvörunarbjölluna hefði getað farið mun verr," segir Gunnar.

Spurður hvort þeir hefðu hlotið einhverja áfallahjálp hló Gunnar og sagði að þeir hefðu nú bara haldið áfram að vinna, „en maður slær ekki hendinni á móti einum bjór í kvöld."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×