Íslenski boltinn

Ólafur Örn á skýrslu í kvöld og verður númer 16

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Örn Bjarnason.
Ólafur Örn Bjarnason.

Ólafur Örn Bjarnason, þjálfari Grindavíkur, verður í leikmannahópi Grindavíkur þegar liðið mætir Keflavík í Pepsi-deild karla í kvöld.

Ólafur Örn tók við þjálfun Grindavíkur fyrr í sumar en fékk í dag leikheimild með liðinu eftir að hafa verið í leikmannahópi Brann í Noregi í síðasta sinn í gær.

Brann vann þá 4-1 sigur á Sandefjord á útivelli en hann kom ekki við sögu í leiknum. Hann flaug svo til landsins í morgun og verður í leikmannahópi Grindavíkur í kvöld.

„Það kemur bara í ljós hvort ég spila í kvöld en ég ætla nú að greina leikmönnum frá því fyrst en ekki í fjölmiðlum," sagði Ólafur Örn við Vísi í dag.

„En það var vissulega alltaf planið að ég myndi spila með Grindavík í sumar eftir að leikheimildin væri komin. Þar með gerum við ekki ráð fyrir því að þurfa að styrkja okkur frekar í vörninni en við erum enn að skoða hvort við þurfum að styrkja okkur annars staðar á vellinum."

Ólafur Örn hefur verið með eymsli í baki en segir það ekki há sér mikið. „Ég var slæmur í bakinu í síðasta leik með Brann og er búinn að vera nokkuð slappur um helgina. Þar að auki var langt ferðalag í leikinn og svo aftur langt ferðalag hingað heim strax í kjölfarið. Undirbúningur minn fyrir þennan leik var því ekki eins og best verður á kosið."

Hann segir að það hafi verið skrýtið að kveðja Brann eftir sjö ára veru hjá félaginu. „Ég fékk að kveðja almennilega um síðustu helgi þegar síðasti heimaleikurinn minn var með liðinu. Ég kvaddi með söknuði en á móti kemur að við tekur spennandi verkefni hér heima."

„Ég á svo von á spennandi leik í kvöld eins og alltaf þegar um grannaslag er að ræða. Bæði lið þurfa sárlega á stigunum að halda og mikið undir í þessum leik."

Ólafur Örn er kominn með númer hjá Grindavík og verður í treyju númer sextán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×