Innlent

Sérfræðingar hafa lært af gosinu

Joe Sultana hjá Evrópsku flugstjórnarstofnuninni segir að allar aðgerðir varðandi lofthelgi Evrópu muni ganga hraðar fyrir sig gjósi á ný. fréttablaðið/pjetur
Joe Sultana hjá Evrópsku flugstjórnarstofnuninni segir að allar aðgerðir varðandi lofthelgi Evrópu muni ganga hraðar fyrir sig gjósi á ný. fréttablaðið/pjetur
Flug í Evrópu myndi ekki raskast á sama hátt og það gerði í maí ef eldgos hæfist nú. Aska úr Eyjafjallajökli lamaði þá nær alla flugumferð í Evrópu. Þetta segir Joe Sultana, yfirmaður hjá Evrópsku flugstjórnarstofnuninni (Eurocontrol) í viðtali við New York Times um helgina. Stofnunin sá um samræmdar aðgerðir í Evrópu þegar öskuský ógnuðu flughelgi.

Sultana segir þekkingu sérfræðinga, eldfjallafræðinga og veðurfræðinga vera mun meiri í dag en hún var fyrir gosið og það fari eftir þéttni ösku hvernig samgöngum verði háttað. „Við höfum nú þrjú mismunandi styrkleikastig af ösku. Í fyrsta lagi, þar sem ekki er öruggt að fljúga, í öðru lagi, þar sem flugvélar skulu gæta varúðar og í þriðja lagi þar sem lág þéttni er í ösku og ekki þarf að gera varúðarráðstafanir.“

Sultana segir að jafnframt hafi sú öskuþéttni sem orsaki flugbann hafa verið hækkaða úr tveimur milligrömmum á rúmmetra í fjögur og öll verkaskipting sé nú betur á hreinu. „Við höfum skýrari línur um hver ber ábyrgð á því að taka ákvarðanir um lofthelgi og einstaka flugvélar.“ Öll ákvarðanataka myndi jafnframt ganga fljótar fyrir sig að sögn Sultana. „Við höfum sett upp samræmda einingu, sem myndi starfa sem þungamiðja ákvarðanatöku og bæta öll samskipti.“- jma



Fleiri fréttir

Sjá meira


×