Innlent

18 ára piltur dæmdur í fangelsi

Átján ára piltur var í gær dæmdur í 8 mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundið, í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Hann rauf skilorð, dóms sem hann hlaut á síðasta ári, með því að fremja ýmis brot.

Pilturinn var dæmdur fyrir innbrot í geymsluskemmu við tjaldstæðið á Hömrum í Kjarnaskógi á Akureyri, þar tók hann sláttutraktor í heimildarleysi og ók honum um svæðið. Að því loknu ýtti hann traktornum ofan í tjörn sem er á svæðinu þar sem hann fannst nokkrum dögum síðar.

Hann var einnig dæmdur fyrir að brjótast inn í verslun í Vaglaskógi í Þingeyjarsveit og stela þaðan 6 vasaljósum, þurrkublöðum, 6 kveikjurum, 9 flöskum af gosi, 10 flöskum af Thule léttöli, 24 flöskum af drykkjarvatni og ótilgreindu magni af ýmiskonar matvöru og sælgæti.

Þá stal pilturinn, ásamt öðrum piltum, tómum áfengis- og gosumbúðum úr gámi bak við Kaffi Amor á Akureyri og farið með þær í Endurvinnsluna og selt fyrir um 1.300 til 2.000 krónur í hvert skipti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×