Lífið

The Hurt Locker sigurvegari

Kvikmyndin The Hurt Locker, sem fjallar um sprengjusérfræðinga í Írak, hefur fengið mjög góða dóma.
Kvikmyndin The Hurt Locker, sem fjallar um sprengjusérfræðinga í Írak, hefur fengið mjög góða dóma.

Kvikmyndin The Hurt Locker var kjörin besta myndin á verðlaunahátíð Samtaka framleiðenda í Bandaríkjunum. Sex af síðustu níu kvikmyndunum sem sigruðu á hátíðinni hafa í framhaldinu fengið Óskarsverðlaunin sem besta myndin.

„Þetta er alveg ótrúlegt,“ sagði leikstjórinn Kathryn Bigelow þegar hún tók á móti verðlaununum. Myndin, sem fjallar um sprengjusérfræðinga í Írak, hlaut hvorki Golden Globe- né Screen Actors Guild-verðlaunin og kom sigurinn Bigelow því í opna skjöldu. Leikmyndahönnuðurinn Karl Júlíusson starfaði við myndina og eru verðlaunin því einnig rós í hnappagat hans.

Það var aftur á móti stríðsópus Quentins Tarantino, Inglorious Basterds, sem vann Screen Actors Guild-verðlaunin, sem eru veitt af Samtökum leikara í Bandaríkjunum. Myndin var verðlaunuð fyrir besta leikaraliðið og eru þetta veigamestu verðlaunin sem hún hefur hlotið til þessa. Besti leikarinn og leikkonan voru valin Jeff Bridges fyrir hlutverk sitt í Crazy Heart og Sandra Bullock fyrir frammistöðu sína í The Blind Side. Þau fengu bæði Golden Globe-verðlaunin á dögunum og þykja mjög líkleg til að hreppa Óskarsverðlaunin eftirsóknarverðu. Tilnefningar til þeirra verða tilkynntar 2. febrúar og verðlaunin sjálf verða síðan afhent 7. mars í Hollywood. Áður en að því kemur verða bresku Bafta-verðlaunin veitt í London, 21. febrúar næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×