Íslenski boltinn

Willum Þór: Okkur skortir einhvern sem kveikir á perunni og vill skora mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur, hoppaði til og frá á hliðarlínunni í á Sparisjóðsvellinum í kvöld en fékk aldrei sigurmarkið sem hans menn unnu svo vel fyrir. Keflvík gerði því 1-1 jafntefli við nágranna sína og hefur þar með aðeins fengið 7 stig út úr síðustu 9 leikjum sínum í Pepsi-deildinni.

„Ég vildi fá meira út úr þessum leik. Baráttan var til staðar, vinnusemin var til staðar og skipulagið var fínt. Við spiluðum boltanum líka vel á milli okkur og það eina sem vantaði var endahnúturinn og meiri grimmdi í að klára færin," sagði Willum Þór.

„Þeir spiluðu aftar heldur en við erum vanir. Við náðum að vinna boltann vel í gegnum miðsvæðið og koma upp með bakverðina. Við áttum mikið af fyrirgjöfum en okkur skortir meiri grimmd í teignum og einhvern sem kveikir á perunni og vill skora mörk," sagði Willum.

„Það er augljóst mál í dag að okkur vantar markaskorara því við áttum að vinna þennan leik. Það er samt ekki endalaust hægt að tala um að eiga eða þurfa því við þurfum að sýna það að við getum skorað mörk og við þurfum bara að klára leikina okkar," sagði Willum sem grætur mörg töpuð stig á undanförnum vikum.

„Það er mannskemmandi að horfa til baka á alla leikina að undanförnu sem við hefðum getað klárað. Við þurfum alltaf að horfa á næsta leik en þetta voru tvö töpuð stig," sagði Willum Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×