Innlent

Stöðva verður umferð í vor

Hætt er við miklu jarðraski verði ekki girt fyrir jeppaumferð við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi, segir prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ. Fréttablaðið/einar
Hætt er við miklu jarðraski verði ekki girt fyrir jeppaumferð við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi, segir prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ. Fréttablaðið/einar
„Ef ekkert er að gert gæti umferð jeppa á gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi valdið umhverfisslysi. Það verður að girða fyrir bílaumferð utan jökuls þegar snjóa leysir," segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands og formaður Jöklarannsóknafélagsins. Litlar breytingar urðu á gosinu í gær, að hans sögn.

Magnús bendir á að þrátt fyrir mikla umferð bíla í kringum gosið síðastliðnar þrjár vikur, stundum yfir hundrað á dag, bendi fátt til jarðrasks af þeirra völdum. Það geti breyst til hins verra fljótlega. Engir slóðar eru á hálsinum norðanverðum. Í leysingum verði svæðið erfitt yfirferðar og gætu jeppar sem fara utan jökulrandar valdið miklum spjöllum. Fáa bíla þarf til að búa til slóða. Í leysingum verða þeir ófærir og hætt við að nýir slóðar verði til. Af slíku verða mikil spjöll.

Magnús mælir með því að næsta sumari fari jeppaslóðin frá Skógum að skála Ferðafélagsins, Baldvinsskála. Þaðan sé stutt að fara að gosstöðvunum. „Á þessu svæði hafa ekki verið bílar áður og svæðið má ekki við skemmdum. Allir verða að taka saman höndum í vor og koma í veg fyrir að Fimmvörðuháls verði eyðilagður," segir hann.- jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×