Enski boltinn

Steve Kean klárar tímabilið með Blackburn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Kean heilsar hér nokkrum stuðningsmönnum Blakburn.
Steve Kean heilsar hér nokkrum stuðningsmönnum Blakburn. Mynd/AP
Steve Kean verður knattspyrnustjóri Blackburn Rovers út þessa leiktíð en hann tók við liðinu þegar Sam Allardyce var rekinn í síðustu viku. Kean átti fyrst bara að taka við liðinu tímabundið en nú hafa indversku eigendurnir ákveðið að gefa honum tækifæri til að stýra Blackburn til vorsins.

Kean stýrði liði Blackburn í fyrsta sinn um síðustu helgi þegar liðið gerði 1-1 jafntefli á móti West Ham United en liðið er eins og er í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Það er ekki ljóst hvort hann fái einhverja peninga til þess að kaupa nýja leikmenn í næsta mánuði.

Kean þarf að byrja á því að sætta menn í búningsklefanum en lykilmenn eins og fyrirliðinn Ryan Nelsen og varnarmaðurinn Christopher Samba voru sem dæmi báðir mjög ósáttir með þá ákvörðun að Sam Allardyce skyldi vera rekinn frá félaginu.

Kean er 43 ára Skoti sem var fyrst þjálfari hjá Fulham og svo aðstoðarmaður Chris Coleman hjá Fulham, Real Sociedad og Coventry. Hann gerðist síðan aðstoðarmaður Allardyce hjá Blackburn í ágúst 2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×