Enski boltinn

Allt bendir til þess að Manchester City láni Robinho til Santos

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robinho kemur af velli á móti Scunthorpe í líklega sínum síðasta leik með City.
Robinho kemur af velli á móti Scunthorpe í líklega sínum síðasta leik með City. Mynd/AFP

Það lítur út fyrir að framhaldssagan um framtíð Brasilíumannsins Robinho hjá Manchester City sé loksins á enda þar sem yfirgnæfandi líkur eru á því að hann verði lánaður til heimalandsins fram á sumar.

Roberto Mancini, stjóri Manchester City, hefur sagt að hann vilji halda Robinho en það gengur illa hjá ítalska stjóranum að nota Brassann sem hefur virkað áhugalaus, orkulaus og úr öllu sambandi við aðra leikmenn liðsins.

„Þetta er allt á réttri leið. Það eru 90 prósent líkur á því að ég komi til Santos," sagði Robinho við brasilísku sjónvarpsstöðina Globo.

„Við erum í viðræðum og það er raunhæft að hann komi hingað á sex mánaða láni," sagði Arnaldo Hase blaðamannafulltrúi Santos.

Robinho skoraði sitt fyrsta mark fyrir Manchester City á tímabilinu í bikarsigrinum á Scunthorpe um helgina og það gæti verið síðasta snerting hans í búningi City því Roberto Mancini tók hann útaf strax eftir markið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×