Lífið

Treysta á Baltasar og Tom Hanks

Baltasar Kormákur er á lista með Tom Hanks, Juliu Roberts, Denzel Washington og Ron Howard yfir kvikmyndagerðarmenn sem Universal bindur miklar vonir við.
Baltasar Kormákur er á lista með Tom Hanks, Juliu Roberts, Denzel Washington og Ron Howard yfir kvikmyndagerðarmenn sem Universal bindur miklar vonir við.

Kvikmynd Baltasars Kormáks, Contraband, er í hópi þeirra níu mynda sem framleiðslufyrirtækið Universal hefur sett í sérstakan forgang fyrir árið 2012. Myndirnar eru sagðar í hópi metnaðarfyllstu verkefna Universal það árið en þetta kemur fram á vefsíðunni deadline.com.

„Það er gott að þeir hafa trú á þessu verkefni,“ segir Baltasar í samtali við Fréttablaðið en hann er nú kominn til Los Angeles. Búið er að ákveða hvenær Contraband verður frumsýnd en það verður við hátíðlega athöfn 16. mars 2012 og má reikna með að mikið verði um dýrðir þegar þau Kate Beckinsale, Mark Wahlberg og Baltasar Kormákur ganga eftir rauða dreglinum í Hollywood.

Baltasar er ekki í slæmum félagsskap á þessum lista, því á honum er að finna nýjustu kvikmynd Tom Hanks sem heitir Larry Crowne. Hanks mun bæði leikstýra myndinni og leika aðalhlutverkið á móti Juliu Roberts. Þá er Safe House, ný kvikmynd Denzels Washington einnig á þessum lista og sömuleiðis Ron Howard með nýja kvikmynd og einnig 47 Ronin sem skartar Keanu Reeves.

Baltasar er þegar farinn að ráða til sín fólk í tökuliðið og er á fullu í leikaraprufum. „Ég fer annaðhvort til New Orleans eða Panama um helgina og bara að ganga frá að ráða fólk í tökuliðið.“ Baltasar staðfestir að hann hafi ráðið Tony Fanning sem leikmyndahönnuð en hann vann meðal annars við Brothers sem Sigurjón Sighvatsson framleiddi og var listrænn stjórnandi kvikmynda á borð við Munich og War of the Worlds eftir Steven Spielberg.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.