Innlent

Málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga

Steingrímur J. Sigfússon, Árni Páll Árnason og Kristján L. Möller undirrituðu samkomulagið fyrir hönd ríkisins en Halldór Halldórsson og Karl Björnsson fyrir sveitarfélögin.fréttablaðið/arnþór
Steingrímur J. Sigfússon, Árni Páll Árnason og Kristján L. Möller undirrituðu samkomulagið fyrir hönd ríkisins en Halldór Halldórsson og Karl Björnsson fyrir sveitarfélögin.fréttablaðið/arnþór
Samkomulag hefur tekist milli ríkis og sveitarfélaga um fjárhagslegar forsendur fyrir flutningi málefna fatlaðra til sveitarfélaganna 1. janúar 2011. Þetta er viðamesta endurskipulagning á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá flutningi grunnskólanna árið 1996. Tekjustofnar sem nema 10,7 milljörðum króna flytjast til sveitarfélaganna á næsta ári samhliða yfirfærslu málaflokksins.

Málið varðar um 2.500 manns sem þurfa þjónustu vegna fötlunar sinnar og um 1.500 starfsmenn í þúsund stöðugildum sem annast þjónustuna. Eftir yfirfærsluna ber eitt stjórnsýslustig ábyrgð á stærstum hluta almennrar félagsþjónustu.

Árið 2011 verða tekjur sveitarfélaga til að fjármagna þjónustu við fatlaða 10,7 milljarðar króna. Útsvarshlutfall sveitarfélaga verður hækkað um 1,2 prósent gegn samsvarandi lækkun á tekjuskattshlutfalli ríkisins. Sérstök framlög verða einnig á fjárlögum næstu þrjú árin.

Sameiginlegt mat á faglegum og fjárhagslegum árangri yfirfærslunnar fer fram árið 2014. Samhliða endurmatinu er stefnt að því að útsvarshlutfall vegna þjónustu við fatlaða verði endurskoðað og að framlög á fjárlögum falli niður, þannig að þjónustan verði alfarið fjármögnuð með útsvari. - shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×