Enski boltinn

Gerrard og Agger verða báðir með á móti Blackpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard og Daniel Agger.
Steven Gerrard og Daniel Agger. Mynd/Nordic Photos/Getty
Steven Gerrard og Daniel Agger eru orðnir góðir af meiðslum sínum og ættu að geta spilað með Liverpool þegar liðið mætir Blackpool á öðrum degi jóla. Liverpool endurheimtir þar með tvo fastamenn fyrir leikjaálagið sem er framundan yfir hátíðirnar.

Steven Gerrard hefur verið frá keppni síðan að hann meiddist aftan í læri í landsleik á móti Frökkum í nóvember. Daninn Daniel Agger hefur ekki getað spilað með liðinu síðan 25. september en Roy Hodgson fagnar endurkomu hans ekki síst þar sem Jamie Carragher verður ekkert með liðinu á næstunni.

„Steven Gerrard og Daniel Agger eru báðir klárir. Það eru mjög góðar fréttir fyrir okkur ekki síst þar sem við erum að fara spila fimm leiki á næstu fimmtán dögum. Þessi kafli getur skipt miklu máli fyrir öll liðin í deildinni," sagði Roy Hodgson í viðtali á heimasíðu Liverpool.

„Steven var klár fyrir síðasta leik á móti Fulham ef að hann hefði farið fram. Það var ekkert verra fyrir hann að fá eina viku til viðbótar til þess að geta æft aðeins meira. Nú þarf hann að fara að spila leiki," sagði Hodgson sem segist nú vera aðeins án tveggja leikmanna.

„Það eru bara tveir leikmenn sem ég get ekki notað. Jay Spearing braut bein fyrir ofan ökkla og verður frá í það minnsta í einn mánuð til viðbótar og læknarnir segja mér að Jamie Carragher verði frá í níu vikur til viðbótar. Ég tel mig þó þekkja Jamie það vel að hann verður kominn mikið fyrr til baka," sagði Hodgson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×