Innlent

Velferðarstjórnin sker niður velferðarmál um 10,7 milljarða

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Þriðjungur af heildarniðurskurði á útgjöldum ríkisins verður í heilbrigðis- og velferðarkerfinu, samkvæmt fjárlögum næsta árs. Rekstur ríkisins á þessu ári er mun betri en fjárlög ársins gerðu ráð fyrir. Skattar, aðrir en tekjuskattar, verða hækkaðir um ellefu milljarða.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, kynnti efni fjárlaga ársins 2011 fyrir fréttamönnum á lfundi í Þjóðminjasafninu í morgun.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að útgjöld ríkisins verði skorin niður um þrjátíu og tvo milljarða á næsta ári. Þar vegur nokkuð þungt niðurskurður í velferðarkerfinu, en að raunvirði nemur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu 6,2 milljörðum króna. Til gamans má geta nemur slík upphæð hálfum Héðinsfjarðargöngum sem verða vígð á morgun og kostuðu tólf milljarða króna.

Undir liðnum almannatryggingar og velferðarmál er skorið niður um 4,5 milljarða króna. Alls eru þetta 10,7 milljarðar króna. En hvernig ver ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð slíkan niðurskurð í málaflokknum?

„Það er einfaldlega þannig að svo stór hluti allra útgjalda ríkisins rennur til félags-, heilbrigðis- og menntamála að það er bara allt of lítið eftir til að taka á sig niðurskurð ef ekkert væri hróflað við þar. Það er einfaldlega ekki hægt, þá náum við aldrei neinum þeim árangri sem við þurfum að ná. Það sem við gerum er að reyna að fara eins sértækt í þetta og við getum," segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.

Þrátt fyrir að tölurnar séu háar er ekki um mikla útgjaldalækkun að ræða hlutfallslega, eða um 5,3 prósent í tilviki heilbrigðiskerfisins og 3,5 prósent til almannatrygginga- og velferðarmála. Hlutfallslega er mest skorið niður vegna útgjalda til samgöngumála, eða um 8,3 milljarða króna sem er 28,4 prósent niðurskurður frá áætlun þessa árs.

Góðu tíðindin eru að rekstur ríkissjóðs er betri en fjárlög þessa árs gerðu ráð fyrir. Í fjárlögum ársins 2010 var gert ráð fyrir að hallinn yrði tæplega nítíu og níu milljarðar króna, en núverandi áætlun gerir ráð fyrir sjötíu og fimm milljarða króna halla á rekstri ríkissjóðs á þessu ári.

Fjárlögin gera ráð fyrir breytingum á skattkerfinu. Þannig mun fjármagnstekjuskattur einstaklinga og skattur á hagnað fyrirtækja hækka um tvö prósentustig úr átján í tuttugu prósent. Erfðafjárskattur mun hækka úr fimm í tíu prósent og þá verður tekið upp sérstakt vörugjald á áfengi og tóbak í Fríhöfninni á næsta ári. Tekjuskattur verður lagður á úttekt séreignasparnaðar og tekinn verður upp sérstakur skattur á bankastarfsemi. Þessar hækkanir eiga að skila ríkissjóði ellefu milljörðum króna í auknum skatttekjum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×