Lífið

Cliff Clavin gefur út plötu eftir mánaða tæknivesen

Arnar Rósenkranz Hilmarsson, Þórólfur Ólafsson, Bjarni Þór Jensson og Fannar Þórsson stofnuðu Cliff Clavin fyrir fjórum árum, en hafa nú loksins gefið út plötu. fréttablaðið/valli
Arnar Rósenkranz Hilmarsson, Þórólfur Ólafsson, Bjarni Þór Jensson og Fannar Þórsson stofnuðu Cliff Clavin fyrir fjórum árum, en hafa nú loksins gefið út plötu. fréttablaðið/valli
Cliff Clavin er ein af mest spennandi rokkhljómsveitum landsins. Hljómsveitin hefur sent frá sér plötuna The Thief‘s Manual, en ýmislegt tæknivesen tafði útgáfu plötunnar.

„Þetta var eiginlega algjört rugl – keðjuverkun sem endaði með að taka allt of langan tíma,“ segir Bjarni Þór Jensson, söngvari hljómsveitarinnar Cliff Clavin.

Bjarni og félagar í Cliff Clavin hafa sent frá sér plötuna The Thief‘s Manual. Platan átti að koma út fyrir nokkrum mánuðum, en tæknilegir örðuleikar töfðu útgáfuna svo um munar. „Það var í rauninni ferlið eftir upptökurnar sem seinkaði plötunni,“ segir Bjarni. „Hún var mixuð á tveimur stöðum, fyrir vestan þar sem hún var tekin upp og í London. Það var alltaf eitthvað tæknivesen sem tafði.“

Cliff Clavin var stofnuð í Garðabæ fyrir fjórum árum. Hljómsveitin sendi frá sér lagið Such Mistakes árið 2007, sem vakti talsverða athygli. Næstu tvö lög, Midnight Getaways og This is Where We Kill More Time klifu hátt á vinsældarlista Xins 977 og festu hljómsveitina í sessi sem eina af mest spennandi hljómsveitum landsins.

The Thief‘s Manual var að mestu tekin upp í hljóðverinu Tankinum á Flateyri. Jolyon Vaughan Thomas hljóðblandaði plötuna, en hann er sonur Kens Thomas, sem hefur unnið með fjölmörgum íslenskum hljómsveitum. „Hann er rosalega klár og hjálpaði okkur mikið í þessu tækniveseni,“ segir Bjarni. En verður næsta plata ekki bara tekin upp á segulband, til að forðast stafræna vesenið?

„Ætli það ekki. Ég held að það sé eina lausnin,“ segir Bjarni í léttum dúr.

Cliff Clavin heldur útgáfutónleika í kvöld á Sódómu. Tónleikarnir hefjast klukkan 21 og það kostar þúsund krónur inn.

atlifannar@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.