Innlent

Guðbergur sýnir áróður

Guðbergur Bergsson rithöfundur hefur opnað áróðurssýningu í Saltfisksetrinu í Grindavík og sýnir gömul áróðursveggspjöld frá einræðisherrum og stjórnmálaforingjum. Þetta er ekki fyrsta áróðurssýningin sem Guðbergur heldur. Hann var með sambærilega sýningu fyrir 35 árum í Súmmsalnum í Reykjavík.

Á sýningunni áróðursspjöld nasista, fasista, kommúnista, frá byltingunni á Spáni, Portúgal og nýlendum í Afríku. Það sem meira er: Spjöldin eru öll í eigu Guðbergs og hann á mun fleiri en komast að á sýningunni.

„Einhverja hluta vegna hafði ég áhuga á þessu því þetta er menningarsögulega séð afskaplega merkilegt," segir Guðbergur.

Hann segir að þekktir listamenn hafi gert t.d. spænsku og rússnesku veggspjöldin. Þau séu vönduð. „En hin portúgölsku sem herinn lét gera eru ekki vönduð og hin eru mjög fátækleg. Þau eru frá nýlendu Portúgala vegna þess að sjálfstæðishreyfingarnar höfðu voðalega lítið fé handa á milli," segir Guðbergur.

Guðbergur var í Portúgal 1974 og 1975 þegar bylgingin var og safnaði áróðursspjöldum og flutti þau alla leið til Íslands. Hann hefur geymt þau æ síðan.

Guðbergur segir að áróðurinn hafi breyst. Nú sé hann látlaus í sjónvarpinu. „Áróðurinn í sjónvarpinu hefur þær afleiðingar að margir sem hafa starfað við sjónvarpið, og koma fram daglega, þeir fara á Alþingi. Þeir hafa tekið við af prestunum sem voru áður í pontunni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×