Innlent

Ríkið greiði mótmælanda bætur

Haukur Hilmarsson.
Haukur Hilmarsson.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi íslenskra ríkið í dag til að greiða mótmælandanum Hauki Hilmarssyni 150 þúsund krónur í bætur vegna aðgerða lögreglu þegar hann var handtekinn og færður á lögreglustöð í nóvember 2008. Héraðsdómur telur að handtakan hafi verið harkaleg og niðurlægjandi fyrir Hauk.

Haukur er sonur Evu Hauksdóttur en bæði voru þau áberandi þátttakendur í búsáhaldabyltingunni. Haukur klifraði til að mynda upp á þak alþingishússins og flaggaði Bónusfána. Hann var nýverið dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir að hafa hlaupið inn á flugbraut við Flugstöð Leifs Eiríkssonar sumarið 2008 og mótmælt málsmeðferð yfirvalda í máli Paul Ramses. Handtöku Hauks í nóvember 2008 var harðlega mótmælt og reyndi hópur fólks að frelsa hann eftir mótmælafund á Austurvelli þegar fólkið gerði tilraun til að brjóta sér leið inn í lögreglustöðina við Hverfisgötu.

Í júlí 2007 dæmdi Héraðsdómur Austurlands Hauk í 18 daga fangelsi fyrir að hafa ekki farið eftir fyrirmælum lögreglu þegar hann tók þátt í mótmælaaðgerðum gegn Kárahnjúkavirkjun og stóriðjuframkvæmdum í Reyðarfirði. Hann hóf afplánun í ágúst sama ár en var látinn laus fjórum sólarhringum síðar með þeim skýringum að honum yrði gert að afplána eftirstöðvar vararefsingar síðar.

Haukur var síðan handtekinn 21. nóvember 2008 þar sem hann var í vísindaferð í Alþingi. Fékk hann þær skýringar að hann ætti að hefja afplánun eftirstöðva áðurnefndrar vararefsingar.

Samkvæmt gögnum málsins lá fyrir að Haukur var ekki boðaður að nýju til afplánunar áður en hann var eftirlýstur til handtöku. Hafði hann verið eftirlýstur í 10 daga í málaskrárkerfi lögreglunnar áður en hann var handtekinn. Gerðist þetta vegna mistaka starfsmanna innheimtustöðvar sekta og sakarkostnaðar.

Héraðsdómur telur að handtakan hafi verið óþarflega harkaleg og niðurlægjandi. Honum voru því dæmdar 150 þúsund krónur í bætur en Haukur fór fram á 1,2 milljónir í bætur. Héraðsdómur taldi að lögreglan hefði ekki handtekið Hauk til að koma í veg fyrir að hann yrði viðstaddur mótmæli sem áformuð voru og höfðu verið auglýst.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.