Innlent

Hefur tæpast áhrif á mál Glitnis

Steinunn Guðbjartsdóttir
Steinunn Guðbjartsdóttir
Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur úrskurðað að erlendir fjárfestar geti ekki sótt mál þar í landi á hendur erlendum fyrir­tækjum fyrir hlutabréfaviðskipti á erlendum mörkuðum.

Þykir dómurinn marka tímamót, enda hafði það færst í vöxt að fjárfestar utan Bandaríkjanna, einkum frá Evrópu, sem töldu sig hafa verið hlunnfarna í hlutabréfaviðskiptum, nýttu sér bandaríska löggjöf um hópmálsóknir til að sækja málin þar í landi. Málum sem þessum verður framvegis vísað frá dómi og stefnendum gert að höfða málið í heimalandi sínu.

Slitastjórn og skilanefnd Glitnis hafa höfðað mál á hendur sjö fyrrverandi eigendum og stjórnendum Glitnis í Bandaríkjunum. Sjömenningarnir eru krafðir um sem nemur 260 milljörðum íslenskra króna fyrir að hafa staðið að meintu samsæri um að svíkja lánsfé út úr bankanum til að nota í eigin fyrirtæki.

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnarinnar, hafði ekki kynnt sér dóm Hæstaréttar Bandaríkjanna en sagðist við fyrstu sýn telja að hann hefði ekki áhrif á málareksturinn gegn Glitni. Hann væri vegna skuldabréfaútboðs í Bandaríkjunum og meint brot sjömenninganna beindust því gegn hagsmunum bandarískra lögaðila. Málið yrði hins vegar skoðað gaumgæfilega. - sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×