Innlent

Enn órói í Eyjafjallajökli

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Enn er órói í Eyjafjallajökli. Mynd/ GVA.
Enn er órói í Eyjafjallajökli. Mynd/ GVA.
Órói er enn í Eyjafjallajökli, samkvæmt upplýsingum sérfræðinga Veðurstofu Íslands á fjölmiðlafundi í Skógarhlíð í morgun. Öskuframleiðsla er enn í gangi en gosmökkurinn er undir 3 km hæð og mælist því ekki á ratsjá.

Samkvæmt upplýsingum Veðurstofu er spáð allhvassri suðaustan- og austanátt með suðurströndinni en annars hægari og verður úrkomulítið. Öskufalli er spáð í nágrenni eldstöðvarinnar, norður og norðvestur af henni. Öskumistur berst þó lengra. Veðurstofa Íslands vill koma því á framfæri að fólk láti Veðurstofuna vita, verði það vart við öskufall. Hægt er að tilkynna öskufall rafrænt á vefsíðu Veðurstofunnar.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Reykjavíkurborgar kemur fram að svifryk mælist yfir viðmiðunarmörkum á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er þörf á að grípa til sérstakra varúðarráðstafana vegna þess enda er svifryksmagnið sambærilegt og á umferðarþungum degi. Í tilkynningu frá sóttvarnalækni í gær segir að þegar öskumistur sé til staðar eða aukin svifryksmengun mælist þá sé einstaklingum með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma ráðlagt að halda sig innandyra en notkun gríma er óþörf. Fólki er bent á að fylgjast með fréttum og upplýsingum og leiðbeiningum á heimasíðum Almannavarna, Umhverfisstofnunar, og Reykjavíkurborgar.

Samkvæmt upplýsingum frá Flugstoðum eru truflanir á innanlands- og millilandaflugi og eru farþegar eindregið hvattir til þess að afla sér frekari upplýsinga hjá flugrekendum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×