Kanadíska félagið hefur keypt umtalsverðan hlut í HS orku í gegnum sænskt dótturfélag sitt, Magma Energy Sweden. Sænska félagið var stofnað sérstaklega til að fjárfesta hérlendi.
Samkvæmt lögum um takmarkanir á erlendri fjárfestingu, geta einungis íslenskir aðilar eða aðilar af evrópska efnahagsvæðinu átt í orkufyrirtækjum.
Nefnd um erlendar fjárfestingar hefur um nokkurra mánaða skeið metið hvort fjárfesting Magma hér á landi standist lögin. Meðal annars hefur nefndin látið vinna fyrir sig lögfræðiálit í þessu skyni.
Unnur Kristjánsdóttir, formaður nefndarinnar og fulltrúi Samfylkingarinnar í henni, vildi ekkert tjá sig um málið fyrir fundinn. Hún lét heldur ekkert uppi um sína afstöðu.
Eftir því sem næst verður komist mun nefndin fallast á að kaup Magma á hlutum í HS orku standist íslensk lög. Þó sé ekki loku fyrir það skotið að nefndin komist að annarri niðurstöðu, leiði umræður á fundinum til þess.