Innlent

„Það er betlmenning og allir eiga að fá allt frítt“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Bára Atladóttir hönnuður og eigandi Brá verslunar.
Bára Atladóttir hönnuður og eigandi Brá verslunar. Vísir/Lýður

Eigendur fyrirtækja eru að drukkna í beiðnum frá fólki sem vill fá allt fyrir ekkert að sögn verslunareiganda. Ákveðin betlmenning hafi hreiðrar um sig sem alltof mikill tími fari í að sinna.

Bára Atladóttir eigandi Brá verslunar vakti athygli á dögunum á því á samfélagsmiðlum að stór hluti starfs hennar færi í að svara beiðnum frá fólki um að fá eitthvað gefins.

„Ég er rosalega mikið að svara betlpóstum frá einstaklingum sem langar að fá eitthvað frítt fyrir tagg á samfélagsmiðlum í staðinn. Ég er ekki að tala um áhrifavalda. Heldur meðal- Jón eða Gunnu sem langar kannski að gefa vinkonu sinni litla gjöf sem er að fara með viðkomandi í sumarbústað. Ég fæ ekkert í staðinn nema þetta tagg frá einhverri Gunnu sem er kannski með 300 fylgjendur,“ segir Bára.

Allar slíkar beiðnir hafi eitt ákveðið einkenni.

„Fólk heldur að það geti fengið allt fyrir ekkert og það er gallinn“ segir hún.

Stór hluti starfsins fer í að svara betlurum

Bára kveðst ekki bregðast við slíkum óskum.

Ég hef ekki gefið einn einasta hlut síðustu 4 ár og það er af því ég fæ aldrei auglýsinguna sem ég vil fá út úr gjöfinni. Ég myndi segja að um þrjátíu prósent af minni vinnu fari í að lesa póstanna og svara þeim kurteisislega. Í hverri viku eru þetta 30-50 beiðnir og ég svara þeim öllum. Því ef ég geri það ekki á ég á hættu að vera úthúðað á samfélagsmiðlum.,“ segir hún.

Hún kveðst hafa fengið mikil viðbrögð við færslunni þar sem hún vakti athygli á málinu.

„Eftir að ég setti þetta inn á samfélagsmiðla fylltist pósthólfið mitt þar sem aðrir fyrirtækjaeigendur lýsa sömu stöðu eða  hvernig þeir séu líka að drukkna. Það er betlmenning og allir eiga að fá allt frítt,“ segir hún.

Aðspurð hvort hún vilji nota tækifærið og senda fólki skilaboð svarar Bára. 

„ Já viljið þið hætta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×