Erlent

Kastrup lokað vegna drónaflugs

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mynd er úr safni.
Mynd er úr safni. Arroyo Moreno/Getty Images

Kastrup flugvelli í Kaupmannahöfn hefur verið lokað og flugumferð kyrrsett vegna drónaflugs á svæðinu. Lögregla er á vettvangi. Þá voru tveir handteknir í Osló í Noregi vegna drónaflugs skammt frá herstöð, en ekki er talið að málin tengist.

Í fréttum danskra miðla er haft eftir Henrik Stormer yfirmanni Kaupmannahafnarlögreglunnar að hún sé með töluverðan viðbúnað á flugvellinum.

Málið sé litið alvarlegum augum. Fimmtán flugvélum hefur verið stefnt annað vegna drónanna. Hluti þeirra muni lenda í Billund. Þar hafi verið kallaður út auka mannskapur starfsfólks. Þá hefur þremur flugferðum verið beint til Álaborgar og munu sænskir flugvellir, til að mynda í Malmö einnig taka við flugvélum.

TV2 ræðir við farþega í einni af flugvélunum sem send var til Billund. Hann segir að flugstjórinn ætli sér að taka eldsneyti í Billund og fljúga til Kaupmannahafnar þegar kostur er.

Einni flugvél hafi verið leyft að lenda á flugvellinum nú fyrir skemmstu. Ástæðan sú að eldsneytið var á þrotum. Ekki kemur fram um hve marga dróna sé að ræða að svo stöddu. Þá hafa danskir fjölmiðlar ekki fengið upplýsingar um stærð þeirra. 

Tveir handteknir í Noregi

Þá vekur það athygli danskra miðla að á sama tíma berist fréttir frá Noregi af því að tveir hafi verið handteknir í kvöld fyrir að fljúga dróna nálægt herstöð í Osló. 

Samkvæmt fréttum norska ríkisútvarpsins eru þar á ferðinni tveir erlendir ríkisborgarar. Þeir hafi flogið dróna sínum yfir Akershus virki norska hersins í Osló borg. Ekki sé vitað hvað þeim hafi gengið til. Tekið er fram í frétt TV2 af málinu að ekkert bendi til þess á þessum tímapunkti að drónaflugin í Noregi og Danmörku tengist. 

Fréttin verður uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×